140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði — ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni með Norðfjarðargöng versus Vaðlaheiðargöng — að á þessu er mikill munur. Þó svo að úrtölumönnum tækist nú að stoppa Vaðlaheiðargangaframkvæmdina af á morgun þá mundi það ekki flýta framkvæmdum við Norðfjarðargöng um einn einasta dag eða um eina einustu krónu. Ég vænti þess og vona að hv. þingmaður skilji þetta verkefni, það tekur ekki krónu úr ríkissjóði í dag og það ryður engu öðru í burt. Það stendur í gildandi samgönguáætlun að þetta á að vinna á þennan hátt og eigi fullkomlega að standa undir sér. Og ég tók það skýrt fram áðan að mín afstaða hefur ekkert breyst hvað það varðar.

Þá eru það skýrslurnar sem svo mikið er unnið í. Fyrst ætla ég að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki óeðlilegt að ráðgjöfum fyrirtækisins og ríkisstjórna við gerð Vaðlaheiðarganga, og þeim sem hafa annast útreikninga þar, hefur aldrei verið boðið á fund umhverfis- og samgöngunefndar en öllum öðrum hefur verið boðið þar inn að leggja fram sínar svartsýnu skýrslur. Það er eins og það sé plokkað út, virðulegi forseti, þeir sem eru með verstu skýrslurnar og verstu heimsendaspána fá forgang í umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta er mikið atriði.

Við getum haldið áfram að deila um forsendur, og það er alveg sama hvað margir munu verða fengnir til að rannsaka þetta, aldrei munu koma út sömu niðurstöður.

Eitt atriði til dæmis hjá Hagfræðistofnun Háskólans og umræddum verkfræðingi sem skilaði skýrslu er að umferðartíminn um Víkurskarð sé ekki nema 11 mínútur. Virðulegi forseti. Halda menn virkilega að fólk sé að keyra þarna um á 90 kílómetra hraða núna? Ég fékk hringingu í morgun um fólk sem sat fast uppi á heiðinni í gær og komst ekki til læknis hingað til Reykjavíkur vegna þess að það sat fast á heiðinni. Það er dónaskapur að leggja það fram sem útreikninga að segja að fólk geti farið þarna á milli á 11 mínútum, þetta sé eingöngu 11 mínútna stytting, og ef andstæðingarnir nota þetta sem rök þá spyr ég um sanngirni hvað það varðar.