140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hver vildi ekki hafa meira fjármagn til ráðstöfunar í samgöngumál en það sem birtist í þeim áætlunum sem við ræðum í dag? (Gripið fram í.) Allir mundu að sjálfsögðu vilja það. (Gripið fram í.) En við búum við ákveðinn efnahagslegan veruleika, eins og hæstv. innanríkisráðherra hefur ágætlega gert grein fyrir í máli sínu og andsvörum við ýmsa þingmenn í dag, og hann markar að sjálfsögðu þann ramma sem við höfum til ráðstöfunar í þau mikilvægu verkefni sem fjallað er um í samgönguáætlunum.

Ég verð þó að segja, þótt hér hafi komið fram gagnrýni á áætlanir af ýmsu tagi, að talsverður gæðamunur hefur verið á málflutningi t.d. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í því efni annars vegar og hins vegar þeirri dómadagsræðu sem varaformaður Framsóknarflokksins flutti fyrr í dag í þessari umræðu, sem ég á satt að segja eiginlega ekki orð yfir og ætla ekki að eyða frekari tíma í. (Gripið fram í: Varstu að hrósa Sjálfstæðisflokknum?) Já, það kemur fyrir.

Ég ætla að víkja stuttlega að nokkrum atriðum í þessum áætlunum sem mér eru hjartfólgin.

Frú forseti. Er bilun á klukku?

(Forseti (RR): Hv. þingmaður tók til máls kl. 18.07 og forseti hyggst gefa honum merki með bjöllunni þegar fimm mínútur eru eftir.)

Takk fyrir það.

Ég verð að taka undir það með hæstv. innanríkisráðherra að miðað við allar aðstæður sé sú áætlun sem við erum með í höndunum bjartsýn. Það hefur verið sagt að hún sé afturhlaðin, það komi mun stærri hlutdeild til ráðstöfunar á síðasta hluta tímabilsins en þeim fyrstu. Það er rétt, en er þá ekki tilefni til bjartsýni þegar við sjáum það fram í tímann að meira fjármagn verður til ráðstöfunar þegar líður á tímabilið? Ég mundi halda að það bæri vott um bjartsýni.

Erum við þá öll sátt við allt eða sammála öllu sem stendur í þessari áætlun? Nei, það er ekki þannig en ég tel að á heildina litið sé þessi áætlun prýðileg og vænti þess að hún fái góða og málefnalega umfjöllun í viðkomandi fagnefnd. Eins og ég segi eru auðvitað einstök atriði í áætluninni sem menn vildu gjarnan hafa séð með öðrum hætti. Mér finnst mikilvægt sem þingmaður af höfuðborgarsvæðinu, af því að hér hefur mikið verið fjallað um vegamál og margir þingmenn tekið til máls, að koma nokkrum atriðum á framfæri sem varða samgöngumál á suðvestursvæðinu.

Ég vil fyrst minna á að á höfuðborgarsvæðinu öllu búa um 180–190 þús. íbúar. Það er býsna drjúgur hluti af íbúum landsins alls. Mér finnst oft gleymast í umræðum um samgöngumál að það þarf líka að huga að þeim mikilvægu hagsmunum sem eru ríkjandi á þessu svæði. Það á við um einstakar framkvæmdir eða heildarfjármagn til framkvæmda á svæðinu en það á líka við um ýmsa aðra þætti.

Ég fagna t.d. sérstaklega áherslum í áætluninni á umferðaröryggismál, á ýmsar úrbætur að því er varðar göngubrýr og undirgöng til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Ég fagna þeirri áherslu á almenningssamgöngur sem sett er fram í þessari áætlun með myndarlegu framlagi og samkomulagi við sveitarfélögin á svæðinu um myndarlegt framlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það geti í sjálfu sér leitt til þess að minna fjármagn þurfi á móti til framkvæmda. Það hlýtur auðvitað að vera markmið í sjálfu sér. Viðfangsefnin í samgöngumálum eru öðruvísi í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu en víðar um landið og þarf að nálgast þau með aðeins öðrum hætti. Ef við getum sett meira fjármagn í almenningssamgöngur þannig að stærri hlutdeild af ferðalögum á höfuðborgarsvæðinu fari fram í almenningssamgöngum þá hlýtur að vera hægt að draga úr stofnkostnaðarframkvæmdum á móti. Það mundi ég ætla að væri meginhugsunin.

Ég tel líka fjármagn í umferðarstýringu og ýmis tæknileg úrræði vera mikilvæg, sem hér hefur verið fjallað um. Við vitum að meginálag á umferðaræðar höfuðborgarsvæðisins er á tveimur tímabilum á sólarhring, en það er engin ástæða til að byggja upp vegakerfi eða gatnakerfi í þéttbýli miðað við toppana sem vara í stuttan tíma. Þá þarf að reyna að leysa með öðru móti. Það er hægt með umferðarstjórnun og slíku. Inn á þetta er komið í þessari áætlun og því fagna ég sérstaklega og ég lýsi mig algerlega sammála því.

Ég vil einnig koma inn á atriði sem hefur örlítið verið vikið að í þessari umræðu, m.a. af hæstv. ráðherra og fleirum. Það er um tekjur til samgöngumála og hvernig þær eru innheimtar og þá sýn að við eigum að fara frá gjaldtökunni í gegnum bensín- og olíugjaldið yfir í bein notendagjöld. Á bls. 59 í þingsályktunartillögunni hinni stærri segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Á áætlunartímabilinu verði breytt skipan á gjaldtöku fyrir umferð á vegum könnuð.“

Ég verð að segja alveg eins og er að þarna hefði ég gjarnan viljað sjá sterkar að orði kveðið. Ég geri mér grein fyrir, af því sem mér hefur tekist að lesa, að verið er að benda á ýmsa tæknilega — kannski ekki vankanta en tæknileg úrlausnarefni sem þarf að fara í gegnum. Ýmislegt hefur tafist, meðal annars í Evrópu eins og hér er rakið. Á bls. 61 segir um þessa tegund af innheimtukerfum, með leyfi forseta:

„Kostur þessara kerfa er að þau eru að mestu sjálfvirk, tefja ekki umferðina, innheimta má mismunandi gjöld eftir stað og stund og hafa þannig áhrif til að minnka umferðartoppa.“

Ég tel sem sagt og hvet til þess að umhverfis- og samgöngunefnd skoði það sérstaklega hvort hægt sé að kveða sterkar að orði og taka kannski einhver tímasett skref í því efni umfram það sem er í áætluninni sjálfri. Ég tel að það væri kostur ef menn könnuðu það og hvet eindregið til að nefndin skoði það mál sérstaklega.

Varðandi vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu vil ég nefna eitt atriði sem ég tel mikilvægt að sé haft í huga. Það eru sjónarmið almannavarna. Ég tel að miðað við þá staðreynd að hér búa 180 þús. manns á virku eldfjallasvæði þurfi að huga að því varðandi samgönguleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu að þær geti þjónað okkur nægilega vel ef einhver náttúruvá verður sem gerir það að verkum að á skömmum tíma þurfi að flytja fólk í miklum mæli af svæðinu. Þetta segi ég vegna þess að út úr Reykjavík er, að minnsta kosti til austurs og norðurs, bara ein leið. Umræðan um Sundabraut, Vesturlandsveg og annað slíkt hefur að hluta til snúist um það má segja að auka umferðarrýmd innan höfuðborgarsvæðisins, sem ég er satt að segja ekki mjög upptekinn af, en þessi almannavarnamál eru hins vegar líka mikilvæg. Ég held að við höfum ekki gert nógu mikið í því að huga að þeim og hvernig við eigum að geta brugðist við ef einhverja slíka vá ber að höndum. Það kann að vera að einhvers staðar í því mikla plaggi sem mér hefur alls ekki tekist að renna í gegnum nema á yfirborðinu sé fjallað um þetta en ég tel að það ætti alla vega að vera viðfangsefni nefndarinnar að fara í saumana á því máli.

Ég vil ekki bara tala um vegamál. Ég get ekki sem þingmaður Reykjavíkur og fyrrverandi borgarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar í Reykjavík fjallað um samgönguáætlunina án þess að ræða um flugvöllinn í Reykjavík. Það hefur verið stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur um alllangt skeið, sem endurspeglast meðan annars í því aðalskipulagi sem er í gildi fyrir Reykjavík í dag og Vinstri hreyfingin – grænt framboð átti þátt í að vinna, að flugvöllurinn í Vatnsmýri eigi að fara. Um þetta eru að sjálfsögðu mjög skiptar skoðanir. (Forseti hringir.) Þetta er mjög viðkvæmt mál og flókið.

(Forseti (RR): Forseti bendir hv. þingmanni á að klukkan er komin í lag.)

Takk fyrir það, frú forseti.

Um þetta eru mjög skiptar skoðanir. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þarna eru mörg ólík sjónarmið og ríkir hagsmunir á ferð. Ég geri ekki lítið úr því sem oftlega kemur upp í þessari umræðu, að mikilvægt sé að höfuðborgin sé vel aðgengileg, meðal annars flugleiðis, fyrir fólk alls staðar að af landinu. Ég tek undir það en ég tel ekki að afgreiða eigi bara Reykjavíkurflugvallarmálið með því einu og þar með verði hann að vera í Vatnsmýri, 101 Reykjavík. Ég hef aldrei skilið að samasemmerki sé milli þess að flugvöllur sé í eða við höfuðborgina og að hún sé aðgengileg fyrir fólk alls staðar að af landinu flugleiðis annars vegar og hins vegar að hann verði að vera nákvæmlega í Vatnsmýrinni í óbreyttri mynd. Þarna sé ég ekki samasemmerki á milli.

Ég tel að í þeirri umfjöllun sem er að finna á bls. 39 í tillögunni um Reykjavíkurflugvöll sé lagt upp með það að Reykjavíkurflugvöllur verði um ókomna tíð í Vatnsmýrinni í óbreyttri mynd. Ég er ósammála þessu sjónarmiði og sjónarmið mitt og fleiri þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom fram á vettvangi þingflokksins þegar málið var þar til afgreiðslu sem stjórnartillaga. Það er því ákveðinn fyrirvari af minni hálfu hvað þetta snertir.

Ég tel hins vegar að í þessari vinnu og þegar innanríkisráðuneytið fer í viðræður sem eru boðaðar við Reykjavíkurborg eigi menn að vera skapandi í því að leita leiða til að sætta þessi ólíku sjónarmið. Mér finnst mikilvægt að reynt sé að gera það. Ég held að það sé hægt án þess að taka flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, t.d. með því að draga úr umfangi hans þar að einhverju leyti, breyta legu brauta, lengja jafnvel austur/vestur-brautina út í Skerjafjörð að einhverju leyti yfir Suðurgötu og taka hana undir. Þetta tel ég vera hægt ef menn vilja. Ég tel mjög slæmt ef þetta mál verður svo læst að alltaf mætist stálin stinn þar sem annar hópurinn segi: Flugvöllurinn verður að fara — en hinn segi: Hann verður að vera nákvæmlega þarna, óbreyttur. Ég tel að menn eigi að leggja mikið á sig til að ná satt um flugvallarmálið í höfuðborginni til langs tíma og það tel ég að sé hægt.

Ég dreg satt að segja í efa þær tölur sem birtar eru á bls. 39 í tillögunni þar sem fjallað er um nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar við lokun tiltekinna brauta þar sem segir að við lokun á flugbraut 06/24 fari hlutfallið niður í 93,8% og við lokum flugbrautar 01/19 fari það niður í 82,4%. Ég dreg þetta í efa vegna þess að ég man eftir tölum sem voru miklu hærri þegar ég tók þátt í vinnu á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur í skipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins um Reykjavíkurflugvöll. Þá voru þessar nýtingartölu miklu hærri, jafnvel með einni flugbraut. Ég kalla eftir því að fá svör við því hverju þetta sætir og hvað liggur þar að baki.

Þetta er ekki aðalmálið í allri þessari áætlun en það er mér mikið hjartansmál og hefur verið í mínum flokki í Reykjavík. Því vil ég gjarnan að þetta sjónarmið komi fram í þessari umræðu. Mér finnst líka mikilvægt, eins og ég segi, að við finnum lausnir sem sátt er um við landsbyggðina en líka við höfuðborgarsvæðið, ekki megi algerlega sniðganga það.

Hér er boðað að farið verði í samningaviðræður milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar þar sem tryggt verði að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt. Ég tel eðlilegt að flugvöllur sé í eða við Reykjavík sem geti þjónað þessu hlutverki vel. Það kann vel að vera að flugvöllurinn geti þróast áfram í Vatnsmýri en í eitthvað breyttri mynd. Það er gríðarlega þýðingarmikið fyrir höfuðborgarsvæðið, eins og það teygist út, að við þéttum byggðina. Mikill umhverfislegur kostnaður og um leið samfélagslegur mun vaxa ár frá ári ef ekki verður spornað við þessari þróun. Þess vegna höfum við lagt svo mikið kapp á að finna lausnir varðandi flugvöllinn sem koma til móts við þessi sjónarmið. Þessu vildi ég, frú forseti, koma á framfæri við umræðuna.

Á heildina litið finnst mér þau gögn sem liggja fyrir vera vel unnin og áætlunin vera miðuð við þann efnahagslega veruleika sem við búum við. Hún er að mínu mati jákvæði og bjartsýn eins og hæstv. ráðherra orðaði það í máli sínu.