140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem hann flutti áðan. Mig langar að staldra við þar sem hann kom inn á að honum fyndist að stíga þyrfti frekari skref til breytinga á gjaldtöku í sambandi við umferðina. Ég held að það þurfi ekki miklar pólitískar deilur um það en við þurfum hins vegar að fara varlega í að setja okkur markmið og þá þannig að tæknin sé fyrir hendi til að geta framfylgt þeim.

Það sem ég hlustaði mest á í ræðu hv. þingmanns var þegar hann fjallaði um skoðun sína á flugvellinum og staðsetningu hans. Við hv. þingmaður höfum kannski ekki alltaf verið sammála um þetta mál en ég fagna því samt sem kom fram í máli hans, ég tel mjög mikilvægt að vinna málið á þann veg sem hann benti á og lagði til, að menn ræði það af yfirvegun hvernig hægt er að vinna þetta verkefni. Hv. þingmaður ítrekaði það í ræðu sinni og sagði að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir landsbyggðina að hafa aðgang að Reykjavík, hvort sem flugvöllurinn væri á þessum stað eða einhvers staðar annars staðar, alla vega þannig að tryggt væri að hann væri innan höfuðborgarsvæðisins, innan Reykjavíkur — við þurfum svo sem ekki að eyða miklum tíma í þær hugmyndir sem menn hafa nefnt með Hólmsheiðina og þar fram eftir götunum.

En ég vil fagna nálgun hv. þingmanns gagnvart þessu verkefni og ég fagna því líka að hann útiloki ekki, ef ekki er hægt að leysa það með öðrum hætti, að hægt sé að hafa flugvöllinn áfram á þeim stað þar sem hann er með breytingum á því starfsumhverfi sem þar er. En við vitum að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni miðast við að landsbyggðin eigi aðgengi að höfuðborgarsvæðinu og margt annað vegur þungt í þeim efnum. Ég vil fyrst og fremst fagna því hvernig hv. þingmaður nálgast málið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann — vegna þess að það er líka rétt sem hv. þingmaður sagði að það er einmitt af eða á, það er enginn millivegur hjá neinum sem ræðir þessi mál — í hvaða farveg við getum sett málið til að geta rætt það á þann skynsamlega veg sem hann lagði til í ræðu sinni.