140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Varðandi gjaldtökuna get ég bara sagt: Já, það er að sjálfsögðu rétt að tæknin þarf að vera til staðar og hún þarf að vera þannig að hún sé hnökralaus þegar breytingum er komið á. En það sem ég var að leggja áherslu á er að ég tel að menn eigi að reyna að ýta á að þessi þróun verði hraðari af því að í áætluninni er bara talað um að þetta verði kannað. Ég tel að menn mættu gjarnan setja sér eitthvert tímasett markmið í þessu efni, til dæmis, af því að áætluninni er skipt upp í þrjú tímabil, að þetta sé ekki bara einhvern veginn svona opið, kannað, alveg til 2022. Það finnst mér vera dálítið opið og ekki alveg nægjanlega hratt.

Varðandi Reykjavíkurflugvöll þá er þetta bara mín skoðun. Ég mundi gjarnan vilja sjá hann annars staðar en í Vatnsmýri en ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru ólík sjónarmið og ólíkir hagsmunir sem þar vegast á og mér finnst mjög mikilvægt að um þetta stóra og mikilvæga samgönguverkefni, sem er flugvöllur við höfuðborgina, sé góð sátt í landinu öllu. Við erum þrátt fyrir allt ekki nema 320 þúsund manns og við erum dreifð þó að á þessu svæði búi kannski tveir þriðju landsmanna. En mér finnst heldur ekki mega gleyma því að það eru líka ríkir hagsmunir á þessu svæði að byggðin þróist ekki alltaf á þá leið sem verið hefur, að teygjast alltaf austar og austar. Það er bara dýrt samfélagslega og það er umhverfislega dýrt.

Í hvaða farveg má þetta mál fara? Ja, ég hef svo sem enga ákveðna lausn á því. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að innanríkisráðuneytið og Reykjavíkurborg taki upp viðræður. Ég held að það sé ágætt. En ég held að vel mætti hugsa sér að það yrði einhvers konar samráðsvettvangur, til dæmis stjórnmálaflokkanna, hagsmunaaðila, bæði á þessu bæði og úti um land, flugrekenda og þeirra sem láta sig byggðaþróun eða skipulagsþróun á höfuðborgarsvæðinu varða — að einhver slíkur samráðsvettvangur verði til, til dæmis undir hatti innanríkisráðuneytisins sem fjallaði um þetta mál áfram.