140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vill þannig til að ég kom talsvert að vinnu við Landspítalamálin á sínum tíma og átti sæti í nefnd sem fjallaði sérstaklega um þau mál. Þar var fjallað um umferðarmálin alveg sérstaklega og gerðar greiningar á því. Það er alveg ljóst að starfsemi, eins og eitt stykki spítali með alla þá starfsmenn sem þar eru, kallar auðvitað á heilmikla umferð af ýmsu tagi og það er alveg sama hvar hann er staðsettur. Hann mun alls staðar kalla á verulega umferð. Er betra að hafa hann í jaðri byggðarinnar, til dæmis á Vífilsstöðum? Ég dreg það mjög í efa. Það mun líka kalla á umferðarmannvirki af öðrum toga kannski en í miðborginni.

Það er mjög erfitt fyrir þorra fólks að þurfa að sækja þjónustu háskólasjúkrahúss einhvers staðar út í jaðarinn á byggðinni eins og Vífilsstaðalandið augljóslega er, svo að dæmi sé tekið. Það eru mjög slæmar almenningssamgöngur eða lélegar almenningssamgöngur nánast alls staðar af höfuðborgarsvæðinu á það svæði. Það mun enginn fara gangandi eða hjólandi í vinnuna ef spítalinn er staðsettur á slíkum stað. Ég tel að staðsetningin hér í kjarnanum sé hárrétt, líka út frá samgöngupólitískum sjónarmiðum, hún sé hárrétt. Ég dreg mjög í efa að það þurfi að fara í einhver gríðarleg umferðarmannvirki, mislægar slaufur og guð má vita hvað, í Kvosinni þó að háskólasjúkrahús verði byggt upp.

Við skulum ekki gleyma því að það er hérna í dag með þessa miklu starfsemi. Langmestur hluti starfsemi háskólasjúkrahússins er í Landspítalanum við Hringbraut. Þó að einhvers starfsemi, sem í dag er í Fossvogi eða þess vegna á Kleppi, yrði flutt þá má ekki líta svo á að það sé bara allt nýtt á þessu svæði. Það er það ekki. Spítalinn er vel í sveit settur hvað varðar almenningssamgöngur. Það er mjög auðvelt að þjóna Hringbrautinni með almenningssamgöngum, það er mjög þétt byggð í næsta nágrenni við Landspítalann — Miðbærinn, Hlíðarnar, Norðurmýrin, þetta eru með þéttustu byggðum á höfuðborgarsvæðinu þannig að aðgengi fyrir þá sem vilja koma í vinnuna gangandi eða hjólandi er líka mjög gott á þessu svæði. Ég tel að staðsetningin við Hringbraut sé hárrétt.