140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:41]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að gera þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, samgönguáætlun hinni skemmri og lengri, skil á 15 mínútum enda er þetta fyrri umr. Ég ætla samt rétt aðeins að hlaupa yfir og reifa það sem mér býr helst í brjósti.

Ég fagna þessari samgönguáætlun, bæði þeirri styttri og lengri. Á bak við þingsályktunartillögurnar liggi mikil vinna. Þar er stefnumótun og verkáætlun sem er í samræmi við áætlaðan fjárlagaramma og efnahagsgetu og áætlaða framkvæmdagetu ríkissjóðs á þeim tíma. Ég tel að stefnumótunin ein og sér sé mikilvægur leiðarvísir fyrir þingið. Þar eru breyttar áherslur, skýr markmið sem tengjast öðrum markmiðum og sem líta út fyrir þröngan ramma vegáætlunar, sem er að leggja vegi, og flugáætlunar um að halda uppi flugi o.s.frv. Það er sem sé tenging við aðra þætti eins og styrkingu byggðar sem kemur hér inn fyrir utan öryggismálin sem alltaf eru allt um kring, eins og maður segir, í þessari áætlun.

Ég segi eins og fleiri að vitaskuld hefði maður viljað sjá meiri framkvæmdir í gang en fram kemur í fjögurra ára vegáætluninni og eins að stærri framkvæmdir kæmust í gang í þeirri lengri. En ég er mjög ánægð með að þetta skuli ekki vera plagg sem lítur út eins og kosningaloforð eða markmið sem koma fram fyrir kosningar, heldur er reynt að halda sig innan þeirra langtímamarkmiða eða langtímaáætlunar í fjárlagarammanum og er því raunsætt. Þetta er staða sem við verðum að sætta okkur við, nýr veruleiki sem við verðum að sætta okkur við. Eftir hrun vitum við hvar við stöndum og höfum vonandi lært okkar lexíu í hruninu, að gera áætlanir, hvort sem það er þessi áætlun eða aðrar, innan þess ramma sem við teljum að við getum ráðið við.

Í stefnumótunaráætluninni í samgönguáætlun er tekið mið af markmiðum um greiðar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur, öryggi í samgöngum, jákvæða byggðaþróun, og samgöngurannsóknir og rannsóknarstefnu. Farið er yfir skipulag samgöngumála og farið er yfir almennar forsendur og spár um þróun lykilstærða. Í áætluninni er fjallað um grunnnet samgöngukerfisins auk fleiri atriða. Mikilvægt er að líta til alls þessa hvernig sem okkur gengur svo að uppfylla þetta, en okkur er mikilvægt að hafa þennan grunn.

Í áætluninni um stefnumörkunina er nýtt ákvæði sem ég vil fagna mjög og það er ákvæðið um aðgengi fyrir alla, áætlun um greiðar samgöngur fyrir fatlaða og hreyfihamlaða. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé slík markmið sett fram með jafnskýrum hætti og er gert hér. Það er sem sé hönnun fyrir alla, aðgengi fyrir alla, og ég fagna því.

Í gerð vegaframkvæmda og mannvirkja hafa í dag mótast ákveðnar vinnureglur um hvernig eigi að ganga frá götum, gatnakerfi, gangstéttum og öðru slíku þannig að greið leið verði fyrir hreyfihamlaða. Þessar vinnureglur þarf að setja inn í staðla þannig að það sé í raun og veru ekki ákvörðunarréttur hvers og eins sveitarfélags hvernig það gengur frá sínu vegakerfi og gangbrautum, heldur séu þetta staðlar sem allir verða að fara eftir. Ég tel mikilvægt að því verði komið á.

Öryggi í samgöngum er auðvitað mikilvægt, hvort sem er á sjó eða landi. Varðandi öryggismál í vegakerfinu hefur farið fram greining á öllum helstu stofnleiðum og Hringveginum hvar slysagildrur liggja. Samhliða uppbyggingu vegakerfisins er farið að vinna markvisst eftir þessari öryggisáætlun, þ.e. að fjarlægja í næsta nágrenni umferðarbrauta vegakerfisins slysahættur sem við höfum ekki tekið sérstaklega eftir fram að þessu, grjót, hraun eða skurði og bæta það þannig að nánasta umhverfi veganna sé öruggara en það hefur verið. Ég fagna þessu líka.

Mig langar aðeins að nefna nokkra vegarkafla, en ég vil í upphafi vekja athygli á því sem við þingmenn fáum oft að heyra, sama hvaðan af landinu við erum kjörnir, er kjördæmapot. Ef þingmenn taka hér upp málefni kjördæma sinna og fara með þau inn á Alþingi og berjast fyrir þeim og leggja til einhverjar umbætur í kjördæmi sínu er talað um kjördæmapot. Ég tel að við eigum að hætta slíku tali því að það er viðurkennt að í lýðræðisríkjum er það fyrsta skylda hvers þingmanns að sinna kjósendum sínum, fara að vilja kjósenda sinna, með öðrum orðum að fylgja pólitískri stefnu, þeim markmiðum sem hann hefur farið fram með og verið kosinn út á.

Í öðru lagi að vera talsmaður þess svæðis sem hann er kosinn af í sínu kjördæmi, hann er talsmaður kjördæmis síns. Þetta eru skyldur hvers þingmanns, að vera talsmaður kjósenda sinna, vera fulltrúi þeirra. Það er sem sé pólitíkin og að vera fulltrúi síns kjördæmis. Þetta er ekki talið kjördæmapot í öðrum löndum heldur er talað um að standa vörð um sitt kjördæmi.

Undir þeim formerkjum vil ég nefna nokkur dæmi úr Norðausturkjördæmi, mínu kjördæmi. Ég vil fyrst nefna Öxi í þessu sambandi, sem er hár og mikill fjallgarður og er ekki inni á þjóðveganetinu sem þjóðvegur 1 heldur er þetta fjallvegur sem hefur verið lagfærður mikið þannig að hann hefur í síauknum mæli verið ekinn, sem betur fer, því að hann styttir leiðina frá Djúpavogi upp á Hérað um rúmlega 60 kílómetra og munar um minna. Þetta er illfær vegur nema yfir hásumarið. Mér finnst miður í þeim þrengingum sem við stöndum í að við skulum ekki sjá uppbyggingu á Öxi fyrr í vegáætlun en hér er gert ráð fyrir vegna þess að eftir sem áður mun fólk notfæra sér þessa styttingu. Vegurinn er snarbrattur og stórhættulegur nema í sumarveðri og sumarfæri. Það er alveg sama þó að sagt sé: Það er hægt að fara þjóðveg 1, það er hægt að fara örugga leið. Því að fólk styttir sér leið ef það munar um 60 kílómetra. Flutningabílar eru farnir í síauknum mæli að fara þessa leið. Því hvet ég til þess að við skoðum hvort hægt sé öryggisins vegna og hagkvæmninnar vegna að skoða að þetta komi fyrr inn í áætlunina.

Norðfjarðargöng eru næstu jarðgöng, sem betur fer, því að þar erum við að tala um mikla samgöngubót, og ekki bara það, heldur vita allir sem til þekkja hvernig Oddsskarðsgöngin eru. En þetta er mikilvægt að því leytinu til að Fjórðungssjúkrahúsið er staðsett í Neskaupstað og ef við ætlum að halda uppi heilbrigðisþjónustu og því þjónustuneti sem hefur verið að byggjast upp og treysta því að hægt sé að koma sjúklingum á Norðfjörð verðum við að horfa til þess út frá öryggissjónarmiði, fyrir utan atvinnusvæðið og öryggið, að þetta er hluti af því að geta stundað örugga heilbrigðisþjónustu á svæðinu, annars þarf að flytja sjúklinga í auknum mæli í burtu.

Í þessu sambandi vil ég nefna Vaðlaheiðargöng. Ef við værum með Vaðlaheiðargöng í samgönguáætlun eða í stórframkvæmdaáætluninni væru þau sannarlega ekki efst á forgangslistanum, það er eitt sem víst er, því að það eru mörg önnur svæði sem eru brýnni út frá öryggissjónarmiðum en Vaðlaheiðargöng. En Vaðlaheiðargöng eru tekin út fyrir sviga því að þau eiga að geta staðið undir sér með veggjöldum og út á það gengur verkefnið. Unnið hefur verið að þessu verkefni til fjölda ára. Þau tólf ár sem ég hef fylgst með hefur verið áhugi og undirbúningur undir það að fara í þau göng. En ég segi fyrir mig að búið er að gera það margar skýrslur og margar úttektir á kostnaði og rekstri þessara ganga að ég leyfi mér að treysta þeim forsendum sem Vegagerðin gefur sér og leggur fram sem grunn að rekstraráætlun hvað varðar fjármögnun ganganna. Ég held að enginn sé betur í stakk búinn en Vegagerðin að koma með þær forsendur og það er alveg sama hversu margar skýrslur eru lagðar fram. Ef forsendurnar eru mismunandi verður niðurstaðan ólík. Niðurstaðan fer eftir þeim forsendum sem við gefum okkur og ég tel að forsendurnar sem fyrir göngunum liggja séu varkárar. Því treysti ég þeim forsendum sem Vegagerðin hefur lagt fram betur en mörgu öðru.

Ég styð það að haldið verði áfram með undirbúning þeirra ganga og að við getum farið í það verk, eins og tilboð hefur verið gert í, en það hljóðaði upp á 95% af kostnaðaráætlun. Áætlunin um framkvæmdina virðist því standa undir sér.

Nú er tíminn hlaupinn frá mér. Ég fagna þeim sáttatón sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um Reykjavíkurflugvöll. Ég tel tímabært að taka sérstaka umræðu um Reykjavíkurflugvöll. Það fer alveg þvert á flokka hvernig þingmenn líta á staðsetningu og stöðu Reykjavíkurflugvallar. Ég vil að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á þeim stað sem hann er, en ekki óbreyttur. Það er óásættanlegt að farþegaafgreiðslan verði (Forseti hringir.) ekki betrumbætt frá því sem nú er því að hún er okkur hreinlega til skammar, sama hvað dregst svo með að koma framkvæmdum á.