140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns að við eigum að hætta að tala um kjördæmapot. Og ég tek undir þá skoðun hv. þingmanns að auðvitað eru menn að fjalla um þessi mál á þeim svæðum sem þeir þekkja best til og eru kjörnir fulltrúar þeirra svæða.

Mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann um það sem kom fram og hún endaði mál sitt á í sambandi við Vaðlaheiðargöng. Hv. þingmaður sagði að hún teldi að þau göng ættu að geta staðið undir sér miðað við þær skýrslur sem liggja fyrir. Nú á ég sæti í hv. fjárlaganefnd og við höfum fjallað þar um skýrslu IFS-Greiningar. Það er mín persónulega skoðun, og ég ætla ekki að leyna henni neitt, að ég tel mjög mikilvægt að sett sé meira eigið fé inn í verkefnið. Ég er þeirrar skoðunar að allt að 2 milljarða þurfi til að setja inn í verkefnið til að það gangi upp. Auðvitað lesa menn skýrsluna með sínum gleraugum og hver með sínum hætti en ég teldi mjög mikilvægt — og það má lesa það út úr skýrslunni — að til að tryggja það að hægt sé að fjármagna verkefnið væri mjög mikilvægt að setja inn í það eigið fé, og ég tel að það þurfi að vera um 2 milljarðar til að það gangi upp.

Ég er ekki að halda því fram að ég hafi réttar fyrir mér en hver annar með því, en ef við lesum skýrslurnar eigi að síður og gaumgæfum þær er mjög mikilvægt að við horfumst í augu við það sem getur hugsanlega orðið, en segja ekki alltaf: Jú, þetta reddast einhvern veginn og svo tökum við á því seinna.

Ég tel mjög gott að þeir íbúar sem búa á þessu svæði séu tilbúnir að greiða há veggjöld. Ég tel það bara mjög vel í lagt hjá íbúunum, en ég tel hins vegar að menn séu að fela þarna ákveðinn kostnað og fela ákveðnar staðreyndir. Því spyr ég hv. þingmann: Telur hún að sátt mundi nást um það í kjördæminu ef menn stæðu frammi fyrir því að þurfa að setja allt að 2 milljarða í þetta verkefni til að það gengi upp, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess að þeir sem munu nýta göngin þurfi að greiða mjög hátt veggjald?