140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[19:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að bregðast aðeins við nokkrum þeirra atriða sem komu fram í andsvari hæstv. ráðherra. Varðandi Suðurlandsveginn á áætlun þá er það vissulega rétt, eins og ég nefndi hér með Hornafjarðarbrúna, en það er dálítið seint og ég var að ræða það. En er það rétt forgangsröðun, eru það skilaboðin sem samgönguáætlunin sendir út að Suðurlandsvegurinn sé á þessari áætlun en að við tökum til dæmis, svo ég nefni það aftur, Vaðlaheiðargöng á undan? Ég tók þá umræðu hér fyrir um það bil tveimur árum þegar í ljós kom að Suðurlandsvegurinn er sannarlega hættulegasti vegurinn, sá vegur sem hefur valdið mestum slysum og dýrustu og því miður talsvert mörgum banaslysum og því mesta arðsemin fólgin í að laga hann.

Aðeins í sambandi við það síðasta, vandinn snýr auðvitað að því að við höfum ekki nægar tekjur, við þurfum að auka tekjurnar. Þá vil ég taka undir ræður félaga minna í dag, Birkis Jóns Jónssonar, Ásmundar Einars Daðasonar og Gunnars Braga Sveinssonar, um að við þyrftum auðvitað að stækka kökuna. En skattstefna og niðurskurður ríkisstjórnarinnar hefur því miður skilað okkur þangað sem við erum. Gott og vel. Eitthvað af því hefur skilað ágætum árangri en það hefur ekki skilað þeim árangri að hér sé nægilegur hagvöxtur og nægilega margir sem greiða skatta og skyldur þannig að við höfum ekki næga peninga í samgönguáætlunina.