140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[10:54]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa grein sem birtist í Fréttablaðinu fyrir skemmstu og heitir „Getur Alþingi afturkallað málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra?“ Öllum áhyggjum hans vegna þessa er svarað í greininni. Ég nenni ekki að ræða það mál frekar við hv. þingmann.

Hann sakar aðra þingmenn um að vera komnir í einhvers konar þversögn við sjálfa sig, þingmaðurinn sem greiddi atkvæði með því að lýst yrði vantrausti á ríkisstjórnina fyrir nokkrum mánuðum en var síðan kominn í stjórnarmyndunarviðræður við sömu ríkisstjórn nokkrum mánuðum síðar. Þingmaðurinn sem lýsti því yfir að það væri mikill samhljómur með stefnu síns flokks og stefnu Samfylkingarinnar og annarra flokka sem hann hafði rétt nokkrum mánuðum áður lýst vantrausti á. Mikill samhljómur með stefnu Hreyfingarinnar og flokkanna sem hann treysti ekki til að leiða ríkisstjórnina. (ÞSa: : … ósatt …)

Ef einhver hefur farið í hringi í málflutningi sínum þá er það hv. þingmaður. Það er kannski ástæðan fyrir því að hann treystir þinginu ekki til að taka þetta mál til efnislegrar meðferðar. Hann er einn þeirra sem vilja koma í veg fyrir að þingið geti tekið málið til efnislegrar afgreiðslu. Hann treystir ekki þingmönnum til að greiða atkvæði um þetta mál. Hann vill fá málið af dagskrá.

Það er einhver allra lágkúrulegasta nálgun við þetta mál sem hægt er að bjóða upp á vegna þess að undir í þessu máli eru grundvallarmannréttindi og þeir sem þykjast í ræðustól vera talsmenn mannréttinda í þessu landi ættu að hafa í huga að það eru einhver mikilvægustu mannréttindi sem hægt er að taka að sér að verja að menn séu ekki dregnir fyrir dómstól að ástæðulausu og um það snýst þetta mál. Það er það sem hv. þingmaður þarf að fara að koma auga á.