140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[10:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tók eftir því í lok ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann lagði til að málið yrði sett í nefnd sem samkvæmt þingsköpum er ekki til í þinginu, nefnilega saksóknarnefnd sem á stoð sína í lögunum um landsdóm. Þótt hann gerði þetta þá las hann réttilega upp úr minnisblaði frá nefndasviðinu um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis þar sem talin eru tæmandi atriði í starfssviði rannsóknarnefndarinnar og ekkert af þeim atriðum er þannig að saksóknarnefndin geti tekið mál til umfjöllunar og hagað sér eins og fastanefnd í þinginu.

Ég vonast til þess og bið um það að forseti úrskurði sem allra fyrst, áður en þessi umræða heldur áfram, að þessi leið sé óþingleg, og gagnrýni þá aðferð hv. þingmanns að haga sér með þessum hætti í máli sem hann telur vera þingtækt, hann telur vera mannréttindamál og hann telur vera (Forseti hringir.) þannig að þingmenn eigi að fara að lögum (Forseti hringir.) og reglu en gerir þó þetta í sínu þrönga pólitíska hagnaðarskyni.