140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var satt að segja á sínum tíma nokkuð undrandi á að þetta mál kæmi yfirleitt til umfjöllunar þingsins með þeim hætti sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði það fram fyrir jól. Þó er höfuðið bitið af skömminni með því að leggja til að málinu verði vísað til saksóknarnefndar sem starfar samkvæmt lögum um landsdóm. Í 23. gr. þingskapa er kveðið á um að hægt sé að vísa þingmáli til fastanefndar þingsins. Það er meginreglan í þingsköpum. Í 32. gr. er kveðið á um að heimilt sé að skipa sérstakar sérnefndir um einstök mál. Það væri auðvitað hægt að gera það og kjósa sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál. Það yrði þá að gera í þingsal. En það er algerlega kristaltært í mínum huga að það væri þvert brot á þingskapalögum að vísa þingmáli … (Gripið fram í.) Hún var sérnefnd samkvæmt 32. gr. þingskapanna, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Nei, saksóknarnefndin er það ekki, hún er skipuð samkvæmt landsdómslögum. Það er algerlega kristaltært að það væri brot á þingskapalögum að vísa þessu máli, (Forseti hringir.) komist það til nefndar, til saksóknarnefndar.