140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:24]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Stærstur hluti ræðu hv. þingmanns fór í að rekja niðurstöðu landsdóms. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þingmaðurinn telji að tillagan sem hér liggur fyrir sé lögð fram til að hnekkja niðurstöðu landsdóms. Það er grundvallarmisskilningur. Landsdómur fjallaði ekki um þau atriði sem við erum hér að ræða um. Landsdómur hefur aldrei fjallað um það hvort tilefni hafi verið til ákæru. Það verður ekki fyrr en landsdómur, ef til þess kemur, fellir dóm í málinu sem hann kemst að niðurstöðu um hvort nægt tilefni hafi verið til að gefa út ákæru.

Hv. þingmaður komst sjálfur að þeirri niðurstöðu að það hefði verið fullt tilefni til þess í þremur tilvikum að gefa út ákæru á hendur þremur ráðherrum á sínum tíma og hann vék að því í máli sínu að einhverjir kynnu að vera hér í þingsal sem skipt hefðu um skoðun frá því að málið var afgreitt. Hann hefur samt látið hafa eftir sér að þegar hann afgreiddi málið fyrir sitt leyti hafi hann ekki tekið afstöðu með sekt eða sýknu þeirra sem ákærðir voru.

Nú er spurningin: Hefur þessi þingmaður sem hér talaði enn sömu skoðun? Hefur hann enn þá skoðun sem hann hefur lýst opinberlega, að ég hygg oftar en einu sinni, að með því að hafa greitt atkvæði með ákæru hafi ekki verið tekin afstaða til sektar eða sýknu í dómsmálinu gegn Geir H. Haarde? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.) (Gripið fram í.)