140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:26]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi leggja áherslu á í minni ræðu áðan var að þegar þingmenn tækju afstöðu til þeirrar dagskrártillögu sem ég legg hér fram með þremur öðrum þingmönnum þurfa menn að taka afstöðu til þess hvort nægilega mikið efnislega hafi breyst í málinu til að réttlæta það að Alþingi taki nýja ákvörðun. Við þau orð stend ég.

Ég hef áður rakið það hér og annars staðar á hvaða grunni ég byggði mína afstöðu á sínum tíma. Ég tel mig hafa fært nokkuð málefnaleg rök fyrir henni. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, skoðun mín er sú að í tilviki þriggja ráðherra hafi komið fram nægilega skýr gögn sem eigi að leiða til þess að mál þeirra eigi að fara fyrir landsdóm, já.