140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:27]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar menn segjast ekki taka afstöðu til sektar eða sýknu liggur í þeim orðum að menn vísi málinu eitthvað annað til úrlausnar. Það er grundvallaratriði fyrir útgáfu ákæru að menn telji meiri líkur til sakfellingar en sýknu og það er af þeirri ástæðu sem ég komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að ekki bæri að gefa út ákæru á hendur nokkrum ráðherra. Ég verð að játa að mér finnst mjög óskýrt hver niðurstaða hv. þingmanns er um þetta atriði í ljósi þeirra orða sem hann hefur áður látið falla.

Tillagan sem hér liggur frammi er ekki um að hnekkja niðurstöðu landsdóms. Hún er um það að þingheimur taki afstöðu til þeirra álitaefna sem hv. þingmaður vék að, t.d. þess hvort nægilega margt hafi breyst í millitíðinni, hvort menn telji sig hafa tekið ranga ákvörðun, hvort menn ætli sér að skipta um skoðun. Það vill þannig til að þeir hafa komið fram, fleiri en einn þingmaður, sem telja að röng niðurstaða hafi fengist í þingsal. Þess vegna er æpandi sú spurning hvers vegna þingmaðurinn treysti ekki þingi til að taka afstöðu til þeirra efnisatriða sem hann hefur hér rakið. Hvers vegna vill þingmaðurinn ekki að þingmenn taki afstöðu til þeirra hver fyrir sig, hver á sínum forsendum, eins og hv. þingmaður hefur gert fyrir sitt leyti og ég get út af fyrir sig borið fulla virðingu fyrir þó að ég sé ósammála þeim?