140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:28]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að þegar menn velta fyrir sér umræðu dagsins og taka afstöðu til málsins hér við atkvæðagreiðslu þurfi menn að velta fyrir sér efnisatriðum málsins. Það er alveg hárrétt, út frá þeim eigum við að taka afstöðu. Ég nálgast málið út frá því sjónarhorni og segi við þingheim: Hefur eitthvað komið fram sem réttlætir það að Alþingi eigi að taka nýja ákvörðun? (Gripið fram í: Það kemur í ljós.)

Ef þingmenn hér inni telja að þeir eigi að taka aðra ákvörðun nú en þeir gerðu á sínum tíma segi ég við þá: Það er þá væntanlega vegna þess að þið tókuð ekki ákvörðun út frá efnislegum forsendum á sínum tíma heldur út frá einhverju öðru. Mér finnst það röng nálgun á málið því að ég tel að við eigum að nálgast verkefnið sem við stöndum frammi fyrir út frá efnislegum forsendum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hefur eitthvað breyst í málinu sem réttlætir að Alþingi taki nýja ákvörðun?