140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:31]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er nú svo samkvæmt lögum að Alþingi ber að fjalla um það hvort það telji að ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög eða ekki. Ég verð að lýsa furðu minni á þeim málflutningi sem birtist í ræðu hv. þingmanns að Alþingi geti einfaldlega ekki tekið afstöðu til þess hvort ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög eða ekki. Hv. þingmaður tók þátt í atkvæðagreiðslu um einmitt það atriði og lýsti þar með skoðun sinni.

Alþingi hefur enn ákæruvaldið í þessu máli. Það fer með ákæruvaldið. Já, það er einkennilegt. Já, það er sérstakt. Þetta er eina tilvikið í lögum þar sem Alþingi fer með ákæruvaldið. Það er óvanalegt. Er hætta á því að lagaleg álitaefni séu þar með flutt hingað inn í þingsalinn? Já, það er hætta á því. Það er bara önnur umræða. Svona eru lögin.

Jafnmikið og hv. þingmanni þykir það óeðlilegt get ég sagt fyrir mitt leyti: Það er líka fullkomlega óeðlilegt að pólitíkin sé flutt í réttarsalinn.