140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þótti sú ræða sem flutt var áðan af hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur nokkuð vanstillt. Ég held að ástæða sé til að nálgast þetta mál af aðeins meiri yfirvegun. Það er eðlilegt að kallað sé eftir svörum hjá þingmönnum um afstöðu þeirra til þeirrar grundvallarspurningar hvort þeir hafi talið það líklegra eða meiri líkur en minni til þess að fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, yrði sakfelldur. Það er ein af lykilspurningum í þessu máli. Það er algerlega eðlilegt að slík umræða fari hér fram.

Síðan tek ég auðvitað heils hugar undir þau orð sem hér hafa fallið hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að eðlilegt sé, fullkomlega eðlilegt í ljósi þess að saksóknarvaldið er hjá Alþingi að þetta mál sé tekið hér til umræðu og sú umræða sé kláruð. Ég ætla að beina því enn og aftur til hv. þingmanna að við snúum okkur nú að hinni efnislegu umræðu í málinu og látum eiga sig sem slík form umræðunnar og tökum hana þá í lok málsins.