140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það er orðið ljóst að hér mun verða tilkynnt að fram komi frávísunartillaga á þá tillögu. Mér þykir það óeðlilegt og í raun sorglegt að slík tillaga skuli koma fram því að ég hefði haldið að þingið ætti að fá að ræða tillöguna og greiða svo um hana atkvæði einhvern tímann þegar umræðan er úti. Menn þurfa ekki endilega að vera sammála um hvort fara eigi þá leið sem þar er lagt til eða ekki. Ég er ósammála því að við eigum ekki að fá að ræða þessa tillögu og henni verði vísað til nefndar og hún fái hér eðlilega málsmeðferð. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að verið sé að starta einhvers konar nýjum reglum í þinginu að ef meiri hluti þingmanna er á móti því að hér komi einhverjar tillögur inn verði reynt að fara í frávísanir.

Það er búið að upplýsa okkur og lýsa því mjög ákveðið og vandlega að þessi tillaga er þingtæk. Um það hafa ritað til dæmis forseti lagadeildar Háskóla Íslands og ég veit ekki betur en yfirlögfræðingur Alþingis hafi líka kveðið upp úr um það. Hingað koma alþingismenn samt í þennan ræðustól eða í fjölmiðla sem telja eða gefa það í skyn að verið sé að grípa inn í með einhverjum hætti, Alþingi sé að grípa inn í dómsmál. Alþingi er ákærandi í málinu og fer samkvæmt lögum með þetta mál.

Sumir þessara þingmanna hafa sjálfir lagt fram í þinginu tillögu um að Alþingi grípi inn í algjörlega óskyld mál. Hv. þm. Björn Valur Gíslason flutti tillögu á löggjafarþinginu 2009–2010, með leyfi forseta, sem hljóðar svo í fyrstu setningu:

„Alþingi ályktar að fela skrifstofustjóra Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember […] verði dregin til baka …“

Þarna var tillaga hv. þingmanns um að Alþingi gripi inn í mál sem var ekkert á vegum Alþingis, algjörlega óskylt því.

Annað mál var flutt svipaðs eðlis. Reyndar var talað þar um yfirlýsingu en engu að síður var verið að reyna að hafa áhrif á saksóknara, sem mundi kallast væntanlega sjálfstæður saksóknari.

Virðulegi forseti. (MÁ: Hvaða mál var það sem …?) Fullyrðing um að tillaga Bjarna Benediktssonar sé ekki þingtæk hefur verið hrakin eins og ég lýsti áðan. Því er ljóst að við þurfum því miður að taka afstöðu til frávísunartillögu. Verður það þá vitanlega gert. Það er hins vegar óheppilegt að mínu viti. Það er reyndar mjög sérkennilegt að þessi viðbrögð skuli vera þegar við erum með dæmi af ráðherrum í núverandi ríkisstjórn og forustuflokkunum þar sem ráðherrar hafa tekið þær ákvarðanir að virða ekki einu sinni dóma Hæstaréttar, eins og þegar hæstv. umhverfisráðherra fékk dóm varðandi skipulag Flóahrepps, svo dæmi sé tekið. Hæstv. forsætisráðherra var nú skammaður fyrir að virða ekki jafnréttislög.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Með úrskurði landsdóms 3. október sl. var sakargiftum í liðum 1.1. og 1.2. í ákæru Alþingis vísað frá landsdómi. Ákæruatriðin voru nánar tiltekið þau, annars vegar að ákærði hefði sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, og sem honum hafi verið eða mátt vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins, og hins vegar að ákærði hefði látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því með eigin aðgerðum eða tillögum til annarra ráðherra að unnin væri heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu …“

Landsdómur ákvað hins vegar að vísa frá veigamiklum ákæruliðum, sem voru þeir liðir sem ég nefndi áðan, en taldi ekki forsendur til að vísa öðrum liðum frá. Við skulum bara hafa það á hreinu. Þeir liðir verða hins vegar að teljast svona veigaminni en þeir liðir sem vísað var frá landsdómi eins og ég nefndi.

Einhver mundi því telja að ekki væri ástæða til að halda áfram svo umfangsmiklu máli vegna þessa en aðrir telja svo ekki vera. Þar liggja að baki vissulega ýmsar ástæður og verðum við að virða í raun skoðanir hvers og eins í þessu máli.

Eftir að landsdómur vísaði í meginatriðum málsins frá standa eftir fjögur atriði, eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni; að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað hefðu mátt vera markvissari, vanrækt hafi verið að hafa frumkvæði að aðgerðum til að draga úr stærð bankakerfisins, að hafa ekki fylgt eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninganna og að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Ég tek undir það sem sagt er í greinargerð með tillögunni þar sem bent er á að ólíklegt verði að teljast að Alþingi, í það minnsta sumir alþingismenn, hefði talið tilefni til að ákæra einhvern út frá þeim fjórum liðum sem eftir standa. Kem ég þá aðeins að atkvæðagreiðslunni á þinginu. Ljóst er að þegar við skoðum atkvæðagreiðsluna kemur ýmislegt í ljós. Til að mynda sýnist mér að það séu einungis tveir þingmenn sem vildu ákæra Geir Hilmar Haarde einan, aðrir vildu að hinir kæmu fyrir landsdóm, en atkvæðagreiðslan þróaðist eins og frægt er orðið. Hvort það hafi verið taktískt eða ekki skal ég ekki kveða upp úr með hér en mörgum okkar finnst að svo hafi verið.

Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur réttilega bent á að þeir sem voru samkvæmir sjálfum sér í þeirri atkvæðagreiðslu voru undrandi á þessari niðurstöðu og eðli málsins hafi breyst mjög við hana. Er ég sammála hæstv. innanríkisráðherra.

Þá hafa ýmsir lögmenn — þar á meðal lögmenn sem stjórnarandstaðan og sumir stjórnarliðar treystu nánast eða mikið á, að minnsta kosti í þessu svokallaða Icesave-máli, eins og Stefán Már Stefánsson — bent á að niðurstaðan hefði getað orðið önnur ef venjum við ákæru sakamála hefði verið fylgt. Það að greiða atkvæði um hvern og einn hafi orsakað mögulega tilviljunarkennda niðurstöðu og slík niðurstaða er ekki studd efnislegum rökum og gengur því ekki. Umræddur Stefán Már Stefánsson fer ágætlega yfir það í grein í Morgunblaðinu hvaða afleiðingar þessi staða hefur getað haft og hvet ég þingmenn sem hafa ekki lesið þá ágætu grein nú þegar að gera það hið snarasta.

Í grein sinni nefnir Stefán Már Stefánsson tvenns konar ágalla, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi að niðurstaða kosningar á Alþingi um það hverjir skyldu ákærðir kann að hafa orðið tilviljunarkennd. Forsenda sumra þingmanna kann t.d. að hafa verið sú að þeir samþykktu því aðeins ákæruna að allir yrðu ákærðir líkt og þingmannanefndin lagði til.“ — Þ.e. allir fjórir. Persónulega hef ég, eins og ég hef sagt, viljað sjá alla ríkisstjórnina á þessu blaði ef kæra átti einhvern á annað borð. — „Heildarniðurstaðan gæti því hafa orðið önnur“ — segir prófessor Stefán Már Stefánsson — „en meiri hluti þingmanna reiknaði með og gerði ráð fyrir. Það er illa stætt á því að tilviljanir geti ráðið því hverjir skuli sæta ákæru.“

Ef þetta er mögulega með þessum hætti er að mínu viti full ástæða til að málið komi aftur inn og farið verði yfir það, því að þingmenn hafa stigið fram og sagt að við þessa breytingu eða við það hvernig atkvæðagreiðslan fór breyttist eðli málsins.

Stefán Már prófessor endar sína grein á því að sé það rétt að ekki hafi verið farið eftir almennum viðurkenndum reglum um höfðun sakamála dragi það mjög úr trúverðugleika ákærunnar.

Þetta er eitthvað sem við þurfum þá vitanlega að hafa í huga.

Herra forseti. Pólitískt uppgjör getur ekki verið fólgið í því að draga einn mann til ábyrgðar. Það þarf meira til. Ef pólitíkin brást á það sér miklu lengri sögu en nær fram á daginn í dag og fram á þessa mínútu í rauninni, því að sumir þeirra sem tóku að sér að vinna úr hruninu hafa tekið ákvarðanir sem þarfnast svo sannarlega rannsóknar við, hvernig forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra héldu til dæmis á Icesave-málinu. Endurreisn bankakerfisins ber að rannsaka nú þegar og kanna hvort ástæða sé til ákæru.

Af því það mun örugglega koma fram í umræðunni að ástæða sé til að rannsaka fyrri einkavæðingu bankanna þá tek ég undir það. Í því sambandi megum við ekki gleyma því, svo ég skjóti því hér inn, að Íslandsbanki, eða Glitnir, hefur aldrei verið einkavæddur fyrr nema af þeirri ríkisstjórn er nú situr.

Ef það yrði nú þannig að hæstv. forsætisráðherra yrði hugsanlega ákærð, það kæmi út úr rannsókn þá er það annað kjörtímabilið í röð sem hæstv. forsætisráðherra mundi lenda í því.

Herra forseti. Tími minn er búinn. Ég mun klára ræðu mína síðar í dag. Ég tel að tillagan sem komið hefur fram sé mjög eðlileg og eigi að fá eðlilega meðferð í þinginu. Því ber að hafna frávísunartillögunni (Forseti hringir.) á þessum tímapunkti.