140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann las úr grein Stefáns Más Stefánssonar, sem er reyndar einn af ráðgjöfum lögfræðings Geirs H. Haardes, þar sem lögfræðingurinn kemst að þeirri niðurstöðu að það séu, væntanlega með öðru, mistök Alþingis við atkvæðagreiðsluna sem mæli með því að ákæran verði afturkölluð með þeim hætti sem lagt er til í dag.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þeirri niðurstöðu lögfræðingsins að þessi mistök Alþingis mæli með því, því að það er mjög fátt sem hefur breyst á þessum tíma, fáar forsendur hafa breyst frá því að alþingismenn tóku þá ákvörðun sem þeir tóku í september 2010 hver um sig en einkum allir saman því að Alþingi talar bara einni rödd og ekki 63, það talar bara þeirri rödd sem kemur fram hér við atkvæðagreiðslur. Við þessa ferföldu atkvæðagreiðslu talaði Alþingi einni rödd í hverri þeirra. Í fimmta sinn, þegar heildarniðurstaðan var borin undir þingið, tók Alþingi líka ákvörðun sem var sú að staðfesta þær fjórar ákvarðanir sem það hafði tekið áður. Það er mjög mikilvægt í þessu og ég minnist þess að sjálfstæðismenn hafa einmitt sagt það og haldið því mjög á lofti að ábyrgð einstakra manna á einstökum atkvæðagreiðslum sé mikil, að menn geti ekki skorast undan henni því að meiri hluti þingsins hafi að lokum tekið þá ákvörðun að standa við þau úrslit sem urðu í þessum fjórum atkvæðagreiðslum.

Er þingmaðurinn sammála því viðhorfi sem fram kemur hjá Stefáni Má Stefánssyni, að það hafi verið mistök að greiða atkvæði með þessum hætti?