140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Svar hv. þingmanns var að annaðhvort hefðu þetta verið mistök eða þá að þetta hefði verið útpælt, þannig að ég vitni orðrétt í ræðu hv. þingmanns. Það er bara einn hér á þinginu sem ber ábyrgð á atkvæðagreiðslu af þessu tagi, hvernig hún fer fram og hvernig hún er pæld út eða á því hver mistök á henni verða. Það er hvorki ég né hv. þingmaður sem máttum í september 2010 greiða atkvæði eins og okkur var uppálagt heldur er það forseti þingsins, (Gripið fram í.) sá forseti sem hér var kosinn með 59 atkvæðum í maí 2009. Hann ber þá ábyrgð annaðhvort á mistökunum eða útpælingunni. Næsta spurning til hv. þingmanns er ósköp einfaldlega þessi: Hvernig á forseti að bregðast við þeirri niðurstöðu hans og annarra þingmanna að hann, forseti þingsins, hafi gert mistök með þessari atkvæðagreiðslu ellegar, sem er enn þá verra, að hann hafi pælt hana út í því skyni að kalla þar fram einhvers konar niðurstöðu?

Svar þingmannsins og annarra þeirra sem nota þau rök í þessum sal verða forsetanum auðvitað umhugsunarefni og líka þeim 59 sem kusu hann. Ég var reyndar ekki í þeim hópi, ekki af því að ég greiddi atkvæði gegn núverandi forseta eða sæti hjá heldur vegna þess að ég var ekki á þinginu þá. Það er auðvitað eðlilegt ef þetta er afstaða þingmanna, jafnvel meiri hluta þingmanna, að mistök eða útpæling forsetans hafi orðið til þess að maður stendur hér fyrir dómi alsaklaus að því er virðist af þeim ástæðum að óður skríll hafi að honum ráðist með lurkum og heykvíslum, að sá forseti segi af sér. Er það ekki einmitt niðurstaðan sem við hljótum að komast að, (Forseti hringir.) forseti, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson?