140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða hug hv. þingmaður ber til forseta Alþingis en ég ber fyllsta traust til forseta þingsins og bendi hv. þingmanni … (Gripið fram í.) — Ég vil gjarnan fá frið til að halda ræðu mína, hv. þingmaður. Ég bendi hv. þingmanni á að forseti þingsins er jú þingmaður eins og við öll hin, og ég held að ég beri jafnmikla ábyrgð á því að hafa ekki stöðvað atkvæðagreiðsluna og hæstv. forseti vegna þess að ég sé það núna að ég hafði ástæður og tækifæri til að gera athugasemdir við hana en áttaði mig ekki á því. (MÁ: Þú gerðir það ekki þá.) Ég gerði það ekki þá, hárrétt. (MÁ: Mistök.) Já, ég gerði mistök, það verður líklega að reka mig.

Nú hafa komið fram ábendingar um að það kunni að vera að Alþingi hafi þarna farið á svig við reglur. Mér finnst því ástæða til að það sé hreinlega skoðað. Þess vegna tel ég að þessi tillaga eigi að fá framgang í þinginu og að óeðlilegt sé að vísa henni frá.