140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil inna hv. þingmann eftir. Hann segir í fyrsta lagi í ræðu sinni að hrakið hafi verið að málið sé þinghæft með því að það sé hér á dagskrá. Ég er ósammála þingmanninum um það atriði og samkvæmt þingsköpum hef ég og þeir sem eru sammála mér í þessu eina leið til að láta á það reyna ef við erum ósammála þessari niðurstöðu forseta, það er að flytja tillögu til rökstuddrar dagskrár. Er þingmaðurinn ósammála því? (Gripið fram í.) Er þingmaðurinn ósammála því að það sé sú leið sem við höfum sem erum þessarar skoðunar til þess að láta reyna á hvort málið er þinghæft?

Ég vil líka inna þingflokksformann Framsóknarflokksins eftir því hvort hann vísi út í hafsauga lögskýringum höfunda landsdómslaganna frá 1963, þáverandi prófessors í stjórnskipunarrétti og síðar formanns Framsóknarflokksins og forsætis- og dómsmálaráðherra, um hvort Alþingi geti haft afskipti af málinu eftir að það hefur tekið ákvörðun.

Hv. þingmaður sagði að hugsanlega hefði orðið einhver önnur niðurstaða ef menn hefðu kosið með einhverjum öðrum hætti en hér var gert. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn á við, en var ekki málið þannig að eftir atkvæðagreiðslu í fjórum liðum voru greidd atkvæði um tillöguna svo breytta í lokin þannig að þingheimur hafi vitað í þeirri atkvæðagreiðslu að um var að ræða að ákæra einn mann? Er þingmaðurinn ósammála því?

Í lokin: Ef þau ákæruatriði sem eftir standa eftir ákvörðun landsdóms um að vísa frá tveimur ákæruliðum en halda áfram með fjóra, eru svona lítilvæg eins og hv. þingmaður segir í máli sínu, hefði þá ekki landsdómur einfaldlega vísað þeim frá líka á þeirri forsendu að það sem eftir stæði væri svo lítilvægt að ekki væri forsvaranlegt að halda áfram með málið? Verður ekki að líta svo á að sú niðurstaða sem landsdómur komst að (Forseti hringir.) þýði einmitt að það sé efnisleg ástæða til að taka á þeim ákærum?