140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[12:00]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu hv. þingmanns og formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að það er erfitt að átta sig á því hvar byrja á umræðu um þetta mál. Það er mjög auðvelt að fara í aðdraganda málsins, í rannsóknarskýrsluna, í skýrslu þingmannanefndarinnar, það er auðvelt að hefja umræðuna á því að fara í ástæður þess að við fjöllum um þetta mál enn og aftur síðan árið 2008. Það er mjög auðvelt að rifja upp þá atburði sem þá gerðust og kölluðu fram þau mál sem hér eru til viðfangs; erfiðleikana, heimilin, fyrirtækin og fjölskyldurnar, efnahagslífið, siðferðisrofið, trúnaðarbrestinn, stjórnmálin, viðskiptalífið — það er auðvelt að fara í þá umræðu. Ég ætla ekki að leyfa mér það núna, þessi umræða hefur mjög oft verið tekin í þingsal og var tekin haustið 2008 í tengslum við þetta mál. Þá var tekin ágætisumræða í þinginu um nákvæmlega það sem við erum að ræða hér, þ.e. rannsóknina, orsakirnar og uppgjörið við fortíðina.

Alþingi virtist þá hafa einlægan vilja til að gera upp þau mál sem við fengum í hausinn haustið 2008. Það virtist ekki skipta máli í hvaða flokki menn voru, hvort þeir voru ráðherrar eða þingmenn, einlægur vilji virtist ríkja í þessum sal til að gera málin upp með sómasamlegum hætti. Um það vitna umræður á þinginu á þessum dögum og um það vitna viðbrögð þingsins.

Hv. fyrrverandi þingmenn Sturla Böðvarsson, Geir Hilmar Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur Sigfússon, Valgerður Sverrisdóttir og Guðjón Arnar Kristjánsson lögðu þá fram á Alþingi sameiginlega frumvarp um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Í frumvarpinu segir um tilgang nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“

Það segir síðar í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er rannsóknarnefndinni falið að segja til um hverjir beri að hennar mati ábyrgð á mögulegum mistökum og hverjir kunni að hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi við framkvæmd laga og reglna um fjármálamarkaðinn og eftirlit með honum. Með þessu færist sjónarhorn rannsóknarinnar að einstaklingum og þætti þeirra í töku einstakra ákvarðana. Spurt verður hver tók tilteknar ákvarðanir eða hver átti að bregðast við upplýsingum sem lágu fyrir. Þessum spurningum þarf bæði að svara út frá því hvað gerðist í raun svo og út frá reglum um valdbærni.“

Víða í frumvarpinu og í greinargerð með því er farið mjög ítarlega í markmið frumvarpsins, ef það skyldi ná fram að ganga sem lög, sem það gerði en það var samþykkt í lok árs 2008. Meginmarkmið þeirrar rannsóknar sem þá átti að fara fram eru okkur öll ljós, þ.e. að kalla fram upplýsingar um orsök og aðdraganda efnahagshrunsins og gera tillögur um úrbætur þar á og viðbrögð, ekki síst stjórnmálamanna, Alþingis og stjórnsýslunnar.

Það var ágætisumræða, ekki mjög löng, um þetta frumvarp á þinginu, bæði í 1. og 2 umr. Margir tóku til máls og einlægur vilji virtist vera til verksins.

Með leyfi forseta vitna ég í núverandi hæstv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson, sem sagði þá í umræðunni:

„Við erum í rauninni að fjalla um kviku íslenskra stjórnmála og eðli máls samkvæmt sýnist þar sitt hverjum.“

Aftur, með leyfi forseta:

„Mikilvægast er í þeirri rannsókn sem nú fer í hönd að fá allar staðreyndir og öll álitamál upp á borðið. […] Í annan stað hlýtur rannsóknin að snúa að stjórnmálunum, að Alþingi, ekki bara stjórn heldur einnig stjórnarandstöðu.“

Þannig var tónninn í þeirri umræðu. Í kjölfar rannsóknarskýrslunnar skipaði Alþingi nefnd til að bregðast við henni undir forsæti Atla Gíslasonar og var nefndin lengst af kennd við hann og er held ég enn.

Ákvörðun Alþingis 2010 um að höfða mál gegn fyrrverandi forsætisráðherra landsins byggist á þessum ítarlegu gögnum, ítarlegu rannsóknargögnum og ítarlegri umfjöllun í þingmannanefnd sem var valin þverpólitískt.

Hvað sagði hv. þm. Atli Gíslason og formaðurinn um þá vinnu sem fór fram í rannsóknarnefndinni, með leyfi forseta, í ræðu um skýrslu þingmannanefndarinnar?:

„Ég verð að segja að þeir sérfræðingar sem unnu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru allt yfirburðamenn á sínu sviði. Það eru færustu sérfræðingar sem við höfum á að skipa. Þess vegna hef ég tekið mikið mark á niðurstöðum skýrslunnar og allri umfjöllun í heild sinni vegna þess að ég geng að því sem vísu að jafnvalinkunnugt fólk og þarna skipaðist til verka skili af sér faglegum, vönduðum vinnubrögðum eins og það temur sér í öllu sínu starfi hvar sem það er á vettvangi þjóðlífsins.“

Um störf þingmannanefndarinnar, sagði hv. formaður hennar, Atli Gíslason, með leyfi forseta:

„Við höfum farið yfir alla texta og meitlað þá og við nutum aðstoðar ótrúlega margra sérfræðinga. Ég ætla ekki að telja þau upp, þau eru nefnd á bls. 3, en ég vil þó þakka þeim sérstaklega sem mest unnu fyrir okkur, þ.e. Jónatani Þórmundssyni, Ragnhildi Helgadóttur og Sigríði Friðjónsdóttur. […] Við veltum við hverjum einasta steini, við svöruðum öllum álitum, við fórum tvisvar, þrisvar yfir erfiðustu álitamálin. Ég get ekki hætt þakkarræðu minni og verð að lýsa aftur yfir því að Alþingi hefur styrk og getu til að vinna í anda þess sem við tileinkuðum okkur og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar …“

Ræða hv. þm. Atla Gíslasonar um skýrslu þingmannanefndarinnar var góð. Hún lýsti því vel að í nefndinni fór fram vönduð vinna í þessu erfiða máli, mjög erfiða. Í kjölfarið skilaði nefndin af sér tillögum til úrbóta á þeim efnum sem komu fram í rannsóknarskýrslunni og þingmannanefndin taldi rétt að gera. Á þeim tillögum byggði Alþingi ákvörðun sína. Það hefur því ekki verið kastað höndunum til þessa verks frá upphafi og fram til þessa dags held ég að við höfum öll staðið í þeirri trú að einlægur vilji væri til að klára þessi mál, ljúka þeim og gera upp á endanum.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, flutningsmaður þessarar tillögu, virðist hins vegar vera á annarri skoðun og leggur til að við hættum þessu uppgjöri, hunsum þá vinnu sem hefur verið innt af hendi fram til þessa, við gerum ekkert með það sem okkur hefur verið sagt, við hunsum álitsgjafa rannsóknarnefndar Alþingis, við gerum ekkert með niðurstöðu Atlanefndarinnar og látum sem ekkert sé. Þá tillögu get ég ekki stutt og mun ekki styðja. Ég tel fullkomlega þinglegt að sjálfsögðu að við ræðum þessa tillögu í dag til enda og síðan muni Alþingi ráða örlögum hennar í framhaldinu, hvort við teljum rétt að landsdómur, sem hefur ekki beðið um að afturkalla málið, og saksóknari, sem hefur ekki beðið um að málið verði afturkallað, fái að ljúka störfum sínum, halda því starfi áfram sem Alþingi fól þeim að gera í krafti þeirra gagna og þeirrar vinnu sem Alþingi sjálft innti af hendi eða hvort við biðjum þau um að hætta við það.

Ef ekki verður hætt við þetta mál í dag að umræðunni lokinni og það tekið af dagskrá verður óumflýjanleg niðurstaða auðvitað sú að það mun lyppast niður og hverfa. Það mun enginn saksóknari sitja undir því í marga klukkutíma ef Alþingi er að svipta hann umboði, það mun enginn saksóknari sitja undir því að vita ekki hvað Alþingi ætlar að gera, að einhver vafi sé í málinu. Það mun enginn landsdómur sætta sig við að enginn saksóknari sé til staðar, enginn landsdómur mun sætta sig við að vita ekki vilja Alþingis í þessu máli, að menn ætli að hugsa sig um aftur, taka stöðuna, ræða málið, fara yfir þetta. Það verður ekki þannig.

Mitt mat er að atkvæðagreiðslan í dag eða kvöld, hvenær sem hún verður, um framhald þessa máls sé í raun og veru atkvæðagreiðsla um það hvort við ætlum að fella málið niður eða ekki.