140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[12:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að vekja athygli á bloggsíðu minni og vona að það verði til að auka lestur hennar enn frekar en nú er.

Það sem ég er að meina er að dagurinn í dag getur mótað ákveðinn endi, til dæmis á því máli sem við erum að fjalla um, ég færði rök fyrir því áðan. Dagurinn í dag og hvernig við afgreiðum þetta mál getur markað ákveðin tímamót í stjórnmálalífinu og skipt miklu máli. Það mun skipta miklu fyrir þjóðina hvort Alþingi ætli að bogna undan því verki sem það sjálft tók að sér undir forustu fyrrverandi forsætisráðherra. Auðvitað mun það skipta máli, auðvitað mun það hafa afleiðingar hvað við gerum hér í dag eins og alla aðra daga. Ég tel að þetta mál geti haft víðtækar afleiðingar og miklu meiri en varða dómsmálið sjálft fyrir framtíðina ef af þeim afskiptum af dómsmálum verður sem margir þingmenn virðast vilja grípa til, (Forseti hringir.) ef þingið fellst á að fara þá leið.