140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:24]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til að andmæla því sem hv. þingmaður hefur sagt um meðferð þingsins á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hún stendur ekki og fellur með því hvort einhver ráðherra er ákærður. Mér finnst hv. þingmaður gera ótrúlega lítið úr þeirri meðferð sem sú skýrsla fékk og þeirri ályktun sem þingmenn úr öllum flokkum voru sammála um að samþykkja hér, þ.e. tillögu þeirra sem um málið höfðu fjallað, og vörðuðu það hvernig þingið vildi bregðast við málinu.

Síðan geri ég líka athugasemd við að hv. þingmaður virðist telja að höfundar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi tekið afstöðu til þess hvort einhver ráðherra hafi gerst brotlegur við lög um ráðherraábyrgð. Enginn slíkur úrskurður var kveðinn upp í skýrslunni. Það þurfti að koma til sérstakrar athugunar hér. Hv. þingmaður virðist telja að með ákærunni eigi hið stóra uppgjör (Forseti hringir.) sér stað. Þess vegna hefur hann t.d. sagt áður að verði ráðherra ekki ákærður (Forseti hringir.) jafngildi það því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fari í tætarann.