140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:27]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið grundvallaratriði að menn átti sig á því að aldrei var tekin afstaða til þess í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvort lög um ráðherraábyrgð hefðu verið brotin. Það er grundvallaratriði, því verður að halda til haga hér í umræðunni.

Ég kom upp áðan til að lýsa undrun minni á þeim ummælum hv. þingmanns sem hann hefur látið falla, að það að draga ákæruna á hendur Geir Haarde til baka jafngilti því að setja skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í heild sinni í tætarann. Ég nefndi dæmi um samþykktir héðan af þinginu sem eru til vitnis um að þingið hefur tekið niðurstöður skýrslunnar mjög alvarlega og þessi ummæli þingmannsins eru fráleit. (Gripið fram í: Ummæli um hvað?) — Um að það jafngilti því að setja skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í tætarann að afturkalla málið. Það stendur upp á hv. þingmann að svara því nánar hvernig hann getur látið þessi orð falla í ljósi þess sem þingið hefur áður samþykkt sérstaklega í tilefni af útkomu þeirrar skýrslu.