140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðuna. Þingmaðurinn hélt því fram að málið væri ekki þingtækt. Það er ekki rétt ályktun vegna þess að málið er á dagskrá þingsins. Þótt menn geti greint á um hvort þeir séu sammála því eða ekki að taka það til afgreiðslu er það á dagskrá í þinginu og fær þar með þinglega meðferð.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um í fyrsta lagi snertir það að þingmaðurinn hefur trekk í trekk lýst því yfir í þinginu að hann vilji að öll mál komi til afgreiðslu. Mig minnir að seinast í gær hafi þingmaðurinn fagnað því sérstaklega að þingmannamál væri komið til afgreiðslu. Hvað hefur breyst í málflutningi hans? Þrátt fyrir að ég skilji að þingmaðurinn sé ekki sáttur við að málið fái þinglega meðferð þá er það þingtækt fyrst það er komið hingað til umræðu. Þetta langaði mig að spyrja hann um.

Í ræðu sinni las hv. þingmaður upp úr skjölum Alþingis og ekkert er við það að athuga. Síðan bætti hann við og talaði um spillingu Sjálfstæðisflokksins og hvernig sérgæskan og eiginhagsmunir sjálfstæðismanna hefðu sett þjóðfélagið allt á hvolf. Lítur þingmaðurinn þá svo á að við séum ekki einungis að rétta yfir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins heldur séum við einnig að rétta yfir hugmyndafræði (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?