140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:30]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Hinn 28. september 2010 voru greidd atkvæði á Alþingi um þingsályktunartillögu meiri hluta þingmannanefndar Alþingis um málshöfðun gegn fjórum ráðherrum. Tveir nefndarmanna Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni lögðu til að þrír yrðu ákærðir en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að enginn yrði ákærður. Um kæruatriði og ítarlegan rökstuðning vísa ég til þingsályktunartillögunnar og ræðu minnar á Alþingi um hana 17. september 2010. Mikilvægustu kæruatriðin að mínu mati voru vanræksla við að draga úr stærð íslenska bankakerfisins annars vegar og hins vegar að fylgja því eftir og fullvissa sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi yfir í dótturfélag bankans. Niðurstaðan byggði meðal annars á ráðgjöf fjögurra af þeim fimm sérfræðingum sem þingmannanefndin leitaði til um hvort réttarfars- og refsiskilyrðum landsdómslaga og ráðherraábyrgðarlaga væri fullnægt varðandi umrædda fjóra ráðherra. Enginn þeirra taldi að mismunandi sjónarmið giltu um þá þótt háttsemi fyrrverandi utanríkisráðherra hafi sérstaklega verið skoðuð þar sem rannsóknarnefnd Alþingis kvað ekki upp úr um hugsanlega vanrækslu hennar í skýrslu sinni eins og raunin varð um hina þrjá ráðherrana.

Hér var um að ræða eina heildstæða tillögu meiri hluta þingmannanefndarinnar um að kæra fjóra ráðherra, ekki fjórar sjálfstæðar tillögur. Það var að minnsta kosti mat mitt. Atkvæðagreiðslunni var þó hagað þannig að greidd voru atkvæði sérstaklega um hvern ráðherra fyrir sig og síðan um tillöguna í heild sinni. Svo fór að Alþingi samþykkti einvörðungu að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Það er skoðun mín að fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar hafi verið bjagað. Einnig hefði verið rétt í ljósi mjög svo breyttra forsendna að fresta síðustu atkvæðagreiðslunni og taka málið fyrir að nýju í þingmannanefndinni til umræðu og kalla eftir ráðgjöf sérfræðinganna áður en lokaafgreiðslan fór fram. Ég hygg að okkur hafi orðið á mistök, þar með talið þeim sem hér stendur, og dæmi það ef til vill fyrst og fremst af því að allflestir, ef ekki allir, þingmenn yfirgáfu þingsal eftir atkvæðagreiðsluna með stein í maganum og óbragð í munninum. Ef til vill olli sú spenna og geðshræring sem var í þingsal því að atkvæðagreiðslumálinu í heild var ekki frestað. Enginn áttaði sig á því, þar á meðal ekki sá sem hér stendur, og ég ber auðvitað fulla ábyrgð á því eins og við hinir 62 þingmennirnir og forsætisnefnd þingsins.

Það er gott að vera vitur eftir á og það er rétt að vera vitur eftir á geri maður mistök.

Eftir þessa niðurstöðu var málið að mínu mati og málatilbúnaður meiri hluta þingmannanefndarinnar laskaður. Ég tek það fram í þessu samhengi að ég lýsti þeirri skoðun minni á þingflokksfundi VG og í óformlegum samtölum fyrir atkvæðagreiðsluna að ég teldi að annaðhvort ætti að ákæra fjóra eða engan. Þessi skoðun mín kom síðan fram opinberlega í fjölmiðlum eftir atkvæðagreiðsluna. Þá skoðun byggði ég á lögfræðilegum sjónarmiðum eins og reyndar alla aðkomu mína að þessu máli, og vík síðar að þeim í ræðu minni. Það er skoðun mín að vandaður fræðilegur og faglegur undirbúningur þingsályktunartillögu meiri hluta þingmannanefndarinnar hafi við atkvæðagreiðsluna vikið fyrir flokkapólitík og persónulegum sjónarmiðum og reyndar einnig ákveðinni vanþekkingu á lögum og lagareglum í þessu sambandi.

Sömu ófaglegu sjónarmið hafa einnig komið skýrt fram opinberlega á liðnum vikum í ummælum einstakra þingmanna um þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Fyrir mér vakti allan tímann að horfa á þetta sem lögfræðingur og einnig út frá reynslu minni sem lögmaður. Ég vil, að gefnu tilefni, minna á það að ríkisstjórnin er fjölskipað stjórnvald þar sem hver ráðherra ber ábyrgð á þeim málaflokkum sem heyra undir ráðuneyti hans. Ég árétta að þyngstu ákæruliðirnir sneru að því að draga úr stærð bankakerfisins og koma Icesave í útibú. Þá er rétt að minna á að ákærurnar sneru að athafnaleysisbrotum frá 7. febrúar 2008 til hrunsins í október 2008. Loks er rétt að taka fram að byggt var á því sem einstakir ráðherrar vissu eða máttu vita í krafti stöðu sinnar og ábyrgðarsviðs, allt í samræmi við meginreglur sakamálaréttarfars. Hér var ekki spurning um aðalmann og hlutdeildarmenn heldur fjóra ráðherra sem allir báru hliðstæða ábyrgð, ég vil segja sambærilega ábyrgð. Að gefnu tilefni vil ég nefna eitt dæmi: Í febrúar 2008, að ég hygg, skipaði ráðherra bankamála nýjan stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins sem hafði það meginhlutverk samkvæmt erindisbréfi sínu og skipunarbréfi að flytja Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í sjálfstætt dótturfélag. Ekkert varð úr því og raunar varð illt verra. Landsbankinn komst upp með að stofna útibú um Icesave-reikninga í Hollandi svo seint sem í lok maímánaðar 2008. Og ekki dró úr stærð bankakerfisins frá febrúar 2008, eins og ráðgjöf Seðlabankans laut að á fundi, og fram að hruni eins og ríkisstjórnin hafði ásett sér. Ég nefndi fyrr í ræðu minni að kalla hefði átt þingmannanefndina saman áður en greidd voru atkvæði um tillöguna í heild, svo gjörbreytt sem hún var orðin. Hin síðbúna þingsályktunartillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar gefur nú tækifæri til þess að málið verði grandskoðað í nefnd fyrir síðari umr., þau álitaefni sem uppi eru.

Þrír vandaðir lögfræðingar, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, og Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður, hafa nú í vikunni skrifaði blaðagreinar sem gefa einnig fullt tilefni til þess. Ég leyfi mér að vísa í grein Stefáns Más Stefánssonar. Þar segir hann, með leyfi herra forseta:

„Ríkissaksóknari hefur auk þess eftirlit með að málsmeðferð standist allar lagakröfur. Komi fleiri en einn við sögu sem hugsanlegir brotamenn við tiltekin brot ber ákæranda að kanna hvort sami eða svipaður grundvöllur sé fyrir hendi að því er einn eða fleiri varðar. Meti ákærandi atvik þannig að staða hinna grunuðu sé sambærileg ber honum að gefa út ákæru á hendur þeim öllum. Ákærandi hefur því ekki frjálst val um það hverja hann ákærir heldur ber honum að meta þátt hvers og eins þeirra á hlutlægum grunni enda standa allir jafnt fyrir lögunum að þessu leyti.“

Hann reifar síðan atkvæðagreiðsluna og fyrri sjónarmið en kemst svo að þeirri niðurstöðu að leiða megi líkur að því að vikið hafi verið frá almennum viðurkenndum reglum um höfðun sakamála þar.

Í grein Ragnars H. Halls koma fram önnur sjónarmið. Hann rekur þar dóm Hæstaréttar nr. 4/2009. Þannig hagaði til að þar voru fjórir ákærðir, þrír fyrir skattalagabrot og einn sem endurskoðandi fyrir brot á þeim reglum. Þeir sem ákærðir voru fyrir skattalagabrot gerðu frávísunarkröfu, ekki endurskoðandinn. Héraðsdómur vísaði málinu frá og Hæstiréttur staðfesti. Í kjölfarið dró ákæruvaldið saksókn á hendur endurskoðandanum til baka.

Ég leyfi mér að vísa líka í grein Valtýs Sigurðssonar í Morgunblaðinu þar sem hann tekur undir þessi sjónarmið. Ég vil jafnframt segja að Ragnar H. Hall tekur undir með Stefáni Má Stefánssyni, að Alþingi sem ákærandi hafi fullt vald til að fella niður mál, og vísar í þá staðreynd að Alþingi fer með ákæruvaldið.

Alþingi fer með ákæruvaldið, við erum öll 63 ákærendur. Þess vegna ber að koma faglega að þessu máli og með auðmýkt og virðingu.

Ég beini því til hv. þingmanna að gjörlesa þessar blaðagreinar og ganga faglega úr skugga um réttmæti þeirra sjónarmiða sem þar eru sett fram.

Herra forseti. Það er rík ástæða til að fara fræðilega og faglega yfir þingsályktunartillögu hv. þingmanns í nefnd milli fyrri og síðari umr. fyrir atkvæðagreiðslu um ályktunina. Viðkomandi nefnd gefst þá tækifæri til að kalla meðal annars fyrir sig fyrrnefnda lögfræðinga og jafnframt sérfræðinga þingmannanefndarinnar. Ábyrgð okkar þingmanna sem ákærenda er þung og henni verður ekki fullnægt nema með fræðilegri og faglegri umfjöllun um þingsályktunartillöguna í anda þess sem þingmannanefndin starfaði.

Hér er virðing Alþingis einnig í húfi. Hún verður að mínu mati alvarlega fyrir borð (Forseti hringir.) borin ef Alþingi samþykkir að vísa þingsályktunartillögunni frá án slíkrar umfjöllunar. Það er mitt mat að þingheimur (Forseti hringir.) þurfi sannarlega að fá faglega leiðsögn í þessu máli.