140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég tek fyllilega undir vangaveltur hv. þm. Atla Gíslasonar um að þingið hafi gert mistök á þeim tíma með því að taka seinni atkvæðagreiðsluna í beinu framhaldi af hinni fyrri án þess að fjalla bæði um efnisleg og fræðileg atriði þessa máls. Ég held hins vegar, eins og hann lýsti ágætlega í ræðu sinni, að geðshræring og það að menn hugsa ekki alveg skýrt þegar hlutirnir gerast mjög hratt sé ástæða þess að þeir áttuðu sig ekki nákvæmlega á hvað var að gerast á þeim tímapunkti en hafa síðan haft svigrúm til að velta því fyrir sér.

Þessi tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar er nú komin fram og við höfum tækifæri til þess að fara ofan í þetta mál aftur, senda málið til nefndar og fara fræðilega yfir það (Forseti hringir.) og taka síðan á því efnislega í þinginu hvort efni séu til að ákæra einn en ekki hina, sem ég ítreka að var ekki mín faglega niðurstaða á sínum tíma.