140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:46]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég viðurkenni að það voru mistök. Ég get bara sagt það hér að ég var sjálfur í talsvert mikilli geðshræringu eftir þessa atkvæðagreiðslu. Ég fann til vanlíðanar í allmarga daga á eftir. Það hvarflaði að mér að flytja slíka tillögu en mér fannst það ekki standa mér næst. Nú gefst tækifærið, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á, til að fara með faglegum og fræðilegum hætti yfir málið út frá þeim grunnsjónarmiðum sem ákærandi á að starfa og í þeim anda. Hann á að velta við öllum steinum. Hér eru komin upp efnisleg álitaefni sem ég tel þess eðlis að við þurfum sérfræðilega, faglega og lögfræðilega leiðsögn. Það eru líka atriði í þingsályktunartillögunni sem ég tel að þurfi ekki þeirrar með, eins og kostnaður við málaferlin. En þarna er talað um forsendur og fleiri atriði (Forseti hringir.) og lögfræðingar hafa komið fram og bent á grundvallaratriði sem þurfi skoðunar við.