140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil beina spurningu til hv. þm. Atla Gíslasonar um það sem mér fannst ekki koma alveg nógu skýrt fram í ræðu hans áðan: Telur hv. þingmaður að þingmannanefndin sem hann leiddi hafi efnislega komist að röngum niðurstöðum? Er hv. þingmaður ósammála því sem kemur fram í tillögu til rökstuddrar dagskrár frá fjórum fyrrverandi nefndarmönnum hans þar sem þeir segja, með leyfi forseta?

„Í því máli sem hér um ræðir hefur ekki orðið neinn sá forsendubrestur sem réttlætir að fallið verði frá málinu.“

Hafa orðið einhverjar breytingar á málatilbúnaðinum sjálfum? Hafa komið ný gögn sem kalla á það að málið verði rannsakað upp á nýtt? Það kom fram í ræðu hv. þingmanns í umræðum um þetta mál, eins og ég vitnaði til fyrr í morgun, að hann teldi þetta mál vera afar vel (Forseti hringir.) unnið á alla kanta, öllum steinum snúið við og málið skoðað tvisvar og þrisvar, hvert einasta atriði.