140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:56]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Í frægum viðtalsþætti í sjónvarpinu fyrir mörgum áratugum, frá upphafsdögum sjónvarpsins, ræddu saman Halldór Kiljan Laxness, Gunnar Gunnarsson o.fl. Nóbelsskáldið sagði: Eigum við ekki að lyfta þessu aðeins upp á hærra plan? Eigum við ekki að lyfta umræðunni upp á faglegt plan, hv. þm. Björn Valur? Ég bið þig góðfúslega að lyfta umræðunni upp á hærra plan og fara í efnisleg rök málsins. Það hafa orðið breytingar og þær urðu við atkvæðagreiðsluna, þar urðu mér á mistök, en að varpa því hér fram að menn hafi þegið greiðslur fyrir að veita ráðgjöf, hvaðan hefur þingmaðurinn þessar upplýsingar? Af hverju ber hann þetta fram? (BVG: Frá háskólaprófessorunum.) Nefnd sem fjallar um þetta mál mun kalla til ótal sérfræðinga og sérfræðiráðgjöf þeirra verður metin af trúverðugleika þeirra og öðru. (Forseti hringir.) En ég vil taka fram að Stefán Már Stefánsson er margreyndur, virtur prófessor og á hans virðingu hefur ekki slegið fölskva.