140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á svipuðum nótum og hv. þm. Birgir Ármannsson hvað þetta mál varðar. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talaði um Andra Árnason hæstaréttarlögmann. Það er ekkert í skrifum Andra Árnasonar, og hann hefur beinlínis sagt það sjálfur, sem kemur í veg fyrir að þingið geti beint því til saksóknara að fella málið niður. Það er ekkert sem kemur fram í skrifum Andra Árnasonar sem segir að þingið megi ekki hafa frekari afskipti af málinu, ekki neitt.

Síðari tíma skrif byggjast einmitt á þeim grundvallarreglum sem við höfum undirgengist, m.a. með Mannréttindasáttmála Evrópu, m.a. með þeirri meginreglu í íslensku réttarfari að saksóknari eða ákæruvald hverju sinni geti á hvaða tíma sem er, á hvaða stigi málsins sem er fellt það niður. Einhverra hluta vegna geta þingmenn Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna ekki sætt sig við það. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Atli Gíslason og fleiri þingmenn sem sátu í þingmannanefndinni (Forseti hringir.) svokölluðu hafa komið hér upp hver á fætur öðrum og sagt: Gerð voru mistök við hina tilfinningaríku atkvæðagreiðslu á sínum tíma. Er ekki hv. þingmaður (Forseti hringir.) sammála mér í því að rétt sé að leiðrétta mistök?