140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður. Við hvað eru menn hræddir? Málið er í farvegi í dómskerfinu og eru menn hræddir við að það gangi þar til enda? Eru menn hræddir við að þar séu kölluð fram vitni sem bæði verjandi og sækjandi vilja fá fram fyrir dóminn? Er það það sem menn eru hræddir við? (Gripið fram í.)

Ég verð bara að segja alveg eins og er, ég tel að þessi ákvörðun hafi verið tekin meðvitað af Alþingi. Ef runnið hafa á menn tvær grímur eftir þá atkvæðagreiðslu eða menn talið að þeir hefðu gert mistök finnst mér mjög einkennilegt að koma fram núna 15, 16 mánuðum eftir þá ákvörðun og segja: Ja, nú skulum við leiðrétta þetta, þegar búið er m.a. að láta reyna á frávísun fyrir landsdómi sjálfum og hann hefur sagt: Tveimur ákæruatriðum er vísað frá, fjögur halda áfram. Það finnst mér óeðlilegt og ekki sæmandi inngrip í meðferð dómsmáls. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)