140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:46]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Vel hefði farið á því ef hv. þingmaður hefði notað meginhluta ræðu sinnar til að ræða þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu en ekki þá sem kemur til atkvæðagreiðslu síðar í dag og varðar það hvort vísa eigi málinu frá. Það er annað mál, það er sérstakt þingmál hér.

Það sem situr eftir eftir þessa ræðu hv. þingmanns er spurningin um það hvort hann telji að það sé þannig samkvæmt íslenskum lögum að einungis þegar ráðherra sé ákærður, einungis í slíkum málum, sé ómögulegt að kalla aftur ákæru eftir að hún hefur verið gefin út. Íslenskum lögum hefur verið breytt á undanförnum áratugum í þá átt að auka möguleika ákæruvaldsins til að kalla til baka ákæru alveg fram að uppkvaðningu dóms. Það eru þau lög sem fræðimenn sem um þetta mál fjalla í dag vísa til til rökstuðnings því að málið sé enn á forræði Alþingis og Alþingi geti kallað málið aftur. (Forseti hringir.)

Hv. þingmaður kemst að annarri niðurstöðu. Er hann þá þeirrar skoðunar að það sé bara þegar ráðherrar eru ákærðir (Forseti hringir.) sem ekki sé hægt að afturkalla ákæruna?