140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Af einhverjum ástæðum er búið þannig um hnúta í okkar lagaumhverfi að sérstök lög gilda um ráðherraábyrgð og sérstök lög um meðferð meintra brota á lögum um ráðherraábyrgð og sérstakur dómstóll fjallar um það, landsdómur. Menn geta verið þeirrar skoðunar að það sé gallað fyrirkomulag og með slík mál ætti að fara fyrir hefðbundna dómstóla, menn geta haft þá skoðun. En þannig er löggjöfin ekki í dag. Af einhverjum ástæðum hafa menn séð ástæðu til þess að láta sérstakar reglur gilda um meint brot af þessu tagi.

Ég segi því einfaldlega: Það á að fara eftir lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð hvað þetta varðar og þegar vísað er í lög um meðferð sakamála þá segir í landsdómslögunum „eftir því sem við getur átt“. Ég tel að það þýði ekki að almennu reglunni, eins og landsdómslögin kveða á um, sé vikið til hliðar og við taki almennar reglur sakamálalaga heldur geti þau einungis verið til fyllingar þar sem það á við og ég tel að það eigi ekki við í því dæmi sem hér er verið að ræða.