140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja þingmanninn aðeins út í það sem kom fram hjá formanni þingmannanefndarinnar áðan, hv. þm. Atla Gíslasyni. Hann sagði í mjög góðri ræðu sinni að skilningur nefndarinnar hefði verið sá að um eina heildstæða tillögu hefði verið að ræða, að kæra fjóra ráðherra, en ekki fjórar sjálfstæðar tillögur. Atkvæðagreiðslunni var þó ekki hagað þannig fyrir þinginu, greidd voru atkvæði sérstaklega um hvern ráðherra fyrir sig og síðan um tillöguna í heild sinni. Niðurstöðuna þekkjum við, hún var sú að Alþingi samþykkti einvörðungu að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Hv. þm. Atli Gíslason segir að skoðun hans sé sú að fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar hafi verið mjög bagalegt, rétt hefði verið í ljósi svo breyttra forsendna að fresta síðustu atkvæðagreiðslunni.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála þessum skilningi Atla Gíslasonar, hvort hún hafi og að þingmannanefndin hafi, eins og kemur reyndar fram hjá honum, skilið þetta sem eina heildstæða tillögu um að kæra fjóra ráðherra.