140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Já, það kann að vera, vegna þess að þjóðin kallaði hér fram í af pöllunum, að ég hafi ekki alveg skilið hv. þingmann. En mér heyrðist það einkum vera þeir ákæruliðir sem landsdómur hafnaði sem valda því að efnisleg breyting hafi orðið á málinu. Þá er rétt að vekja athygli hv. þingmanns á því að aðrir ákæruliðir standa eftir, landsdómur hafnaði ekki ákærunni sem slíkri heldur hafnaði hann einstökum liðum hennar. Það sem nú gerist, eins og í venjulegu réttarhaldi, í venjulegum dómi, er það að sú ákæra sem eftir stendur er grundvöllur þeirrar saksóknar sem fram fer og hún verður grundvöllur þess réttarhalds sem á að fara fram eftir nokkrar vikur. Það er á grundvelli þeirra ákæruliða sem hinn ákærði verður að lokum, ef réttarhaldið nær fram að ganga eins og rétt er að það geri, úrskurðaður sýkn eða sekur.

Ég veit ekki hvort verður, ég veit það ekki, forseti, hvort verður. Ég taldi á sínum tíma, þegar ég var spurður hér sem hluti af löggjafarvaldinu og því ákæruvaldi sem Alþingi var falið með þeim hætti, meiri líkur en minni á sakfellingu. Ég held að hv. þingmaður geti ekki fært betri rök en ég að því hvernig það mál stendur núna. En það er alveg klárt að ákæran stendur og ef hv. þingmaður trúir því að minni líkur en meiri séu á sakfellingu ætti hann að vera mjög ánægður núna þar sem tveir ákæruliðir eru á brott, en það er ekki þannig að ákæran hafi fallið niður.

Nímenningamálið, já, það er alveg rétt að það er annars eðlis, það mál. Hins vegar átti það upptök sín hér á Alþingi, ákæran sjálf kom frá Alþingi, kom frá forseta Alþingis, um penna skrifstofustjórans, þannig að það er ekki mál sem var háð úti í bæ eða kemur okkur ekkert við eins og hv. þingmaður virðist halda fram.