140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hv. þingmaður talaði um að oft kæmu upp deilur í þinginu um hvernig bæri að túlka lög og þar fram eftir götunum og fór yfir þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag. Hann hefur áhyggjur, sem ég ætla ekki að gera lítið úr, af þeim vafa sem hann telur uppi um, sem ég er reyndar ekki alveg sammála honum um en látum það nú vera, að þinginu sé heimilt að grípa inn í málið á þessu stigi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í lagi vegna þess að Alþingi er með ákæruvald í þessu sérstaka máli. Það sem ég vil spyrja hv. þingmann um er hvort ekki væri þá skynsamlegra að taka málið inn til nefndar og fjalla þar efnislega um þessi álitamál. Sumir færa rök fyrir því að ekki megi gera það, aðrir færa rök fyrir því að það megi gera það. Það er búið að vitna í margar greinar sem hafa verið skrifaðar. Væru það þá ekki eðlileg vinnubrögð af hálfu þingsins að fela þingnefndinni sem fengi málið að fjalla um það, kalla til sín færustu sérfræðinga, komast að niðurstöðu og skila inn til þingsins nefndaráliti eftir þá umfjöllun? Hv. þingmaður benti réttilega á í ræðu sinni að það væru margar spurningar sem menn hefðu mismunandi sýn á og ég spyr: Væru það þá ekki vönduð vinnubrögð að taka þannig tillit til ólíkra sjónarmiða, hvort sem menn telja það eðlilegt eða óeðlilegt, án þess að ég sé að gera neitt lítið úr þeim vangaveltum sem hv. þingmaður var með?