140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:37]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og virðulegum sessunaut mínum, Ásbirni Óttarssyni, fyrir þessa fyrirspurn. Ég skal glaður svara þessu en skynsamlegra væri nú fyrir hv. þingmann að afla sér lögfræðiálits vegna þess að ég er ekki lögmaður, eins og fram hefur komið.

Mín skoðun er sú að ef þingið ákveður að setja núna þennan vafa sinn inn í þingnefnd, eftir að hafa þegar falið landsdómi málið til meðferðar og landsdómur hefur þegar úrskurðað fjóra af sex ákæruliðum tæka til meðferðar, og málsmeðferð er hafin, mundi ég — ég er ekki spámaður en ég get ekki séð fyrir mér neitt ferli annað en það að sá lagameistari, sá hæstaréttarlögmaður sem þingið fékk til að vera ákærandi í þessu máli, neyðist til að taka pokann sinn. Ef það er komið upp að þingið telji sig geta fjallað um störf dómsins, um mál sem dómurinn hefur tekið til meðferðar, er það ábending frá þinginu um að þar sé uppi töluvert annar skilningur á þessu máli en landsdómur sjálfur hefur, dómurinn sem hefur úrskurðað þetta mál tækt til meðferðar.

Ég mundi segja af mér ef ég væri í sporum saksóknara í þessu máli, en hvað saksóknarinn gerir veit ég ekki.