140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það sem ég var aðallega að kalla eftir var skoðun hv. þingmanns vegna þess að hér er búið að boða frávísunartillögu þar sem menn telji að ekki megi grípa inn í málið á þessu stigi eins og í öllum öðrum sakamálum, þ.e. sérstaða þessa máls er að ákæruvaldið er hér á þingi.

Nú hafa sumir hv. þingmenn sagt í ræðustól í dag að þeir telji að það hafi orðið eðlisbreyting á málinu þegar í atkvæðagreiðslunni og að þá hefði verið eðlilegra að vinna framhaldið öðruvísi. Menn vilja skoða það sérstaklega án þess að gefa upp hvað þeir muni síðan gera þegar málið verður skoðað og kalla eftir því að málið fái þá þinglega og lýðræðislega umfjöllun. Það var þetta sem ég var reyna fá svar við hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður sagði annað forvitnilegt í umræðunni um þetta mál í september 2010. Þar sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Frú forseti. Í gær heyrði ég mér til mikillar furðu hæstv. forsætisráðherra flytja varnarræðu fyrir ráðherra úr hrunstjórninni. Þessa ræðu lét ég sem vind um eyru þjóta. Mér fannst það minnkun fyrir ráðherrann að flytja ræðuna með tilliti til þess að hún sat sjálf í ríkisstjórninni sem hér um ræðir. Ekki nóg með það, heldur var hún ein af fjögurra manna fjármálaráði í ríkisstjórninni. Ég álít hana vanhæfa til að hafa skynsamlega skoðun á þessu máli.“

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Er hann enn sömu skoðunar?