140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi svarað þessu í upphafi máls míns. Ég tel að tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar sé einmitt dæmi um mjög óvönduð vinnubrögð. Ég held að ég hafi fært ágætisrök fyrir því af hverju ég tel málið ekki þingtækt. Með því værum við að grípa fram fyrir hendurnar á landsdómi, við værum að taka til umfjöllunar mál sem landsdómur sjálfur hefur fjallað mjög faglega um og afgreitt að mínu mati á mjög faglegan og efnislegan máta. Eftir að hafa séð úrskurð frá landsdómi, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, held ég, þegar hann hefur tekið mál til afgreiðslu, líður mér enn þá betur með ýmislegt sem ég sagði þegar við afgreiddum málið frá okkur fyrst á Alþingi. Með því að láta málið halda áfram hjá landsdómi tel ég okkur tryggja vönduð vinnubrögð og þrískiptingu valdsins.