140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði verið þakkarvert ef hv. þm. Birgir Ármannsson hefði gefið sér tíma til að hlusta á ræðu mína í heild sinni því að ég held að ég hafi svarað þessari spurningu líka í henni.

Í upphafi máls míns fór ég mjög skýrt í gegnum af hverju ég teldi ekki tækt fyrir okkur að taka þetta mál til umfjöllunar í nefnd í þinginu. Það er vegna þess að við höfum framselt ákæruvaldið til saksóknara Alþingis til að tryggja þrískiptinguna. Landsdómur hefur fjallað um þau efnisatriði sem koma fram sem ástæða fyrir afturköllun ákærunnar í greinargerðinni með þessari tillögu. Saksóknari Alþingis hefur ekki óskað eftir því og ekki beint því til Alþingis að við drögum þetta mál til baka. Landsdómur notaði ekki tækifærið sem hann hafði til að vísa þessu máli frá.

Varðandi grein Róberts Spanós sakna ég þess mjög mikið að hann skyldi einmitt ekki fjalla um mikilvægi þessa þáttar. Ég taldi að við vildum miða við eldri lagaspekinga eins og við byggðum á. Ég taldi það eftir að hafa unnið í þessari þingmannanefnd í marga mánuði. Við fórum sérstaklega vel í gegnum þetta í upphafi. Þegar við erum búin að samþykkja ákæru er málið farið héðan. Það er aðeins ef það kemur beiðni frá saksóknara Alþingis eða landsdómi sem við getum breytt málinu. (Gripið fram í: … landsdóm.) Þegar við tökum aftur upp atriði sem landsdómur sjálfur er búinn að úrskurða í erum við komin á svo miklar villigötur að ég veit eiginlega ekki hvert við stefnum. (REÁ: Varst þú í nefndinni?) (Gripið fram í.)