140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höldum ró okkar í þessari umræðu. Það eru klárlega deilur og (Gripið fram í: Ég er alveg pollróleg.) mismunandi sjónarmið — já, þú ert pollróleg — um það hvort hægt sé að gera þetta eða ekki. Greinar hafa komið fram sem vitnað hefur verið í. Menn hafa mismunandi skoðanir. Hv. þingmaður segir: Ég tel að þetta séu þau einu réttu skilaboð sem ég ætla að fara eftir. — Látum það nú vera. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að nefndin fái þetta til umræðu.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni þegar hún sagði að það væri jú skylda hæstv. forsætisráðherra að sjá um það að hinir ráðherrarnir ynnu verkin sín. Það sagði hv. þingmaður orðrétt, nefndi Icesave og þar fram eftir götunum.

Mig langar, virðulegi forseti, að vitna í ræðu hv. þingmanns þegar þetta var samþykkt hér árið 2010, með leyfi forseta:

„Þótt því hafi verið haldið fram að alvanalegt sé að ráðherrar og þá einkum forustumenn ríkisstjórnarflokka ræði saman utan formlegra ríkisstjórnarfunda og leiði óformlega til lykta ýmis vandasöm úrlausnarefni hefur slík framkvæmd ekki myndað stjórnskipunarvenju og má ekki gera það. Slíkt fyrirkomulag kann að virðast skilvirkt og hagkvæmt en það brýtur einfaldlega í bága við þá stjórnskipun sem hér ríkir. Við búum við lýðræði á Íslandi, ekki einræði og ekki oddvitaræði. Þetta fyrirkomulag ógnar lýðræðinu og ógnaði heill íslenska ríkisins.

Því er lagt til að allir fjórir ráðherrarnir verði ákærðir sérstaklega fyrir brot á 8. gr. c laga nr. 4/1963, …“

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í máli hv. þingmanns Atla Gíslasonar og í andsvörum hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar: Hefði þingmaðurinn talið það eðlilegt eftir á að hyggja að taka málið til þingmannanefndar eftir atkvæðagreiðsluna sem var með þeim hætti eins og við þekkjum og áður en greidd voru atkvæði um málið í heild sinni?