140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum örugglega flestöll hér verið formenn í nefndum. Ég er formaður landsstjórnar Framsóknarflokksins, ég sendi út dagskrá, ég ákveð hvað fer inn á dagskrána, síðan bæti ég yfirleitt lið þar aftast, þ.e. önnur mál, til að gefa öðrum stjórnarmönnum tækifæri til að koma með mál á dagskrá. Ég ráðfæri mig líka oft við aðra stjórnarmenn um hvaða mál ættu að fara á dagskrá.

En hvað þetta varðar er algjörlega skýrt að þegar ég fór í gegnum mat á því í þingmannanefnd hvort ákæra ætti engan eða alla — ég held að allt upp í 14 ráðherrar hafi fallið innan fyrningarfrestsins varðandi ráðherraábyrgðarlögin — þá fór ég í gegnum hvern einasta ráðherra. Við fengum bréf þar sem við gátum farið í gegnum þetta. Við lásum náttúrlega í gegnum skýrsluna og reyndum að skoða hvar ráðherraábyrgðarlögin ættu við. Það var niðurstaða mín eftir að hafa farið í gegnum hvern og einn að ástæða væri til að ákæra Geir H. Haarde, það væri ástæða til að ákæra Björgvin G. Sigurðsson, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna M. Mathiesen. Það mat varðaði hvað viðkomandi ráðherrar gerðu en ekki sem hóp. Þess vegna fannst mér ekkert óeðlilegt við að það væri nákvæmlega sama ferli sem hver og einn þingmaður færi í gegnum til að vera sannfærð um að menn væru að gera rétt gagnvart hverjum og einum ráðherra.

Þannig var atkvæðagreiðslan sett upp. Þannig var hver einasti þingmaður upplýstur um að greidd yrðu atkvæði um hvern og einn ráðherra. Þess vegna átti ég ekkert erfitt með að ýta á takkann undir lokin.