140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:26]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Athugasemdir mínar eru í svipaða veru og hjá hv. þm. Merði Árnasyni. Hv. þm. Árni Páll Árnason leggur ríka áherslu á að réttarstaða sakbornings liggi undir, þ.e. að ákæruvaldið endurmeti sakarefni. Auðvitað hlýtur maður að spyrja sig um tilefni slíks endurmats. Eru tilfinningar þingmanna, samviskubit þeirra hugsanlegt, efnislegt tilefni til þess að Alþingi Íslendinga fari að taka afstöðu til þess að fella niður ákæru á hendur sakborningi í þessu tilfelli?

Það vakna líka lagalegar spurningar um frumkvæðisskyldu. Hverjum ber að taka frumkvæði, hvar liggur slík frumkvæðisskylda? Við erum búin að framselja saksóknarvaldið til saksóknara Alþingis sem hefur sjálfur látið það frá sér fara að hann hefði gert Alþingi viðvart ef hann hefði séð ástæðu til að breyta ákærunni til íþyngingar eða til að létta hana.

Ég spyr því: Hverjar eru hinar efnislegu ástæður? Hvar hafa þær komið fram?