140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning. Í fyrsta lagi hafa hinar efnislegu ástæður komið fram í máli sem hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur flutt. Þær eru fjórar, ef ég man rétt, sem hann tínir til, og svo geta menn haft sínar skoðanir á þeim. Til viðbótar kemur síðan, hvort sem hv. þingmaður kýs að kalla það samviskubit eða ekki, framburður ýmissa þingmanna um að þeir hafi tekið ákvarðanir á fölskum forsendum.

Hvar liggur frumkvæðisskyldan? Þetta er mjög góð spurning. Hjá hinu venjulega ákæruvaldi liggur hún samkvæmt sakamálalögum hjá ákæruvaldinu sjálfu, þ.e. þeim sem með það fer. Samkvæmt landsdómi er það Alþingi. Það er því ekkert óeðlilegt við að einstakir þingmenn eigi frumkvæði í þessu máli út frá þeirri grundvallarreglu.

Það er ekki þannig, miðað við niðurstöðu landsdóms sjálfs, að ákæruvaldið hafi verið framselt saksóknaranum. Hann gerir kröfur sínar vel að merkja í ákæru fyrir hönd Alþingis, hann er umboðsmaður Alþingis í málinu.

Mér þykir líka orðalagið í minnisblaði því sem samstaða varð um milli allra flokka, um verklagið að baki málinu og hlutverk saksóknarnefndar, um aðkomu saksóknarnefndarinnar, vegna þess að ákæran stafar frá Alþingi, að öllu leyti styðja þessa túlkun. Á þessum grunni ber okkur að taka efnislega afstöðu til þeirra efasemda sem settar hafa verið fram af hv. þm. Bjarna Benediktssyni, með sinni tillögu, af öðrum þingmönnum hér í umræðunni og leiða þær til lykta, svara þeim með efnislegum hætti. Við getum kosið að svara þeim með þeim hætti að við teljum ekki ástæðu til að breyta ákærunni. Það er algjörlega opið í mínum huga. Ég hef ekki gert upp hug minn til tillögunnar að því leyti, það er bara allt önnur spurning, en okkur ber að taka þetta til efnislegrar athugunar.