140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei heyrt þá sem tala um vanlíðan yfir niðurstöðu ákærumálsins á sínum tíma tala um falskar forsendur. Það er hugtak sem hv. þm. Árni Páll Árnason kynnir fyrst til sögunnar í þessum ræðustóli. Ég hef hins vegar heyrt þingmenn lýsa vanlíðan sinni yfir því hver niðurstaðan varð. Ég vil því spyrja þingmanninn: Lítur hann svo á að slíkar málsástæður, tilfinningar þingmanna, séu málefnalega tækar ástæður til þess að Alþingi endurmeti afstöðu sína til ákæru á hendur Geir H. Haarde? Það er grundvallarspurning.

Ég hefði haldið að það væru athafnir eða athafnaleysi ráðherrans sem ættu að ráða afstöðu þingmanna til þess hvort ákært skyldi. Eftir að ákæra er fram komin yrði eitthvað (Forseti hringir.) að breyta þeirri afstöðu annað en tilfinningalíf þingmanna almennt og yfirleitt.