140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög góð spurning, og athyglisverð í ljósi þess að Alþingi hefur ákæruvaldið, hversu þunga vigt eigi að leggja á tilfinningalíf einstakra þingmanna. Ég tel þó að með tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að minnsta kosti séu komin fram atriði sem verði að svara og þingið verði að leiða til lykta. Ég er ekki alveg viss um að þetta eigi eingöngu að túlka sem tilfinningauppnám einstakra þingmanna, og mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þingnefndin taki efnislega afstöðu til þeirra athugasemda.

Ég talaði ekki um falskar forsendur heldur rangar forsendur og þegar ég segi það er ég að vísa til greinar hæstv. innanríkisráðherra sem beinlínis segir í Morgunblaðinu að hann telji sig hafa tekið ákvörðun á efnislega röngum forsendum. Það er efnislegt atriði sem á erindi inn í þetta mál.

Ég túlka nú það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði hér í dag líka (Forseti hringir.) á þann veg að hann telji að það hafi verið tilteknar efnislegar forsendur sem hafi verið skakkar fyrir ákvörðuninni sem hann tók, ekki bara að um tilfinningalegt uppnám (Forseti hringir.) sé að ræða.