140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:32]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þegar við ræðum þingsályktunartillögu um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, ber okkur að horfa til grunnreglna stjórnarfarsins og gildandi laga. Málið snýst ekki um réttarstöðu sakbornings enda hafa engar þær efnislegu ástæður komið fram sem breyta stöðu hans eða réttlæta afskipti Alþingis af því réttarhaldi sem nú er hafið yfir honum. Málið snýst miklu heldur um það hvort Alþingi þekkir sitt eigið hlutverk.

Eftir efnahagshrunið ákvað Alþingi einum rómi að efna til rannsóknar á aðdraganda og orsök þeirra miklu atburða sem skóku íslenskt samfélag. Um ferilinn sjálfan var einhugur í þinginu. Þingið hefur samið leikreglurnar en nú kemur hins vegar í ljós að þeir sem samþykktu leikreglurnar virðast ekki tilbúnir til að una lyktum leiksins, þeim lyktum sem þeir óttast að verði.

Einna athyglisverðast er þó að sjá þau sinnaskipti sem orðið hafa hjá ýmsum þeim sem á sínum tíma voru ákafir í að ákæra og vildu meðal annars ganga lengra en rannsóknarskýrsla Alþingis gaf tilefni til, þ.e. ákæra fjóra ráðherra í stað þriggja. Einn þeirra var hv. þm. Atli Gíslason sem veitti þingmannanefndinni formennsku sem gekk fram með tillögu um að ákært skyldi í málinu. Hann sagði í ræðu fyrr í dag að það hafi orðið einhvers konar eðlisbreyting á málinu við það að einungis einn ráðherra var ákærður en ekki fleiri. Þingmaðurinn er í fullkominni mótsögn við sjálfan sig því að hann sagði allt annað í viðtali í Fréttablaðinu þann 30. september 2010, með leyfi forseta, en þá sagði þingmaðurinn:

„Ég hugsaði einhvern tíma með sjálfum mér: Fjórir, enginn eða einn. Það er algengt í sakamálum að aðalmaður sé ákærður en aðrir ekki, …“

Þetta sagði þingmaðurinn fyrir tveimur árum og dæmi nú hver fyrir sig hversu trúverðugur málflutningurinn er nú þegar sami þingmaður talar í allt aðra veru.

Við vitum öll að þingið átti ekki auðvelda daga fyrir tveimur árum þegar tekin var afstaða til þess hvern bæri að ákæra en hjá því varð ekki komist. Niðurstaðan kom á óvart, hún var óþægileg en niðurstaða engu að síður, fengin eftir fyrir fram gefnum leikreglum sem allir höfðu lýst sig sammála. Það er því alrangt að með niðurstöðunni hafi orðið einhver eðlisbreyting á þessu máli því það er grundvallarregla í öllu réttarfari að menn séu því aðeins sóttir til saka að málefnaleg rök liggi því til grundvallar. Sama gildir auðvitað þegar gefnar eru upp sakir eða fallið frá ákærum. Engin efnisleg rök hafa komið fram í þessu máli sem réttlæta afskipti Alþingis af réttarhaldinu yfir Geir H. Haarde.

Í lögum um landsdóm frá 1963 segir í 51. gr. um meðferð máls fyrir landsdómi að þar megi beita ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í þeim lögum má finna vísbendingu um þetta í 153. gr. laganna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ákærandi getur breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til.“

Af þessu má draga þá ályktun að forsendur afturköllunar ákæru séu að byggt hafi verið á röngum upplýsingum eða fram hafi komið nýjar upplýsingar sem breyti forsendum ákærunnar í grundvallaratriðum.

Í handbók um meðferð opinberra mála sem dómsmálaráðuneytið gaf út 1992 er fjallað um afturköllun ákæru út frá lögunum um meðferð opinberra mála sem nú heita lög um meðferð sakamála. Þar segir um ástæður afturköllunar að þær geti til dæmis verið að fram komi gögn sem sanna sakleysi sakbornings eða ákærandi telji að fram hafi komið gögn sem gefi tilefni til að fresta ákæru.

Eins og fyrr segir hafa engar slíkar ástæður komið fram í þessu máli og þvert á móti hefur Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, upplýst að hún telji sig hafa í höndum mál sem sé líklegt til sakfellingar, og hún hefur sagt að ef svo væri ekki þá hefði hún nú þegar gert Alþingi grein fyrir því.

Áður en þessu pólitíska moldviðri var þyrlað upp nú um hátíðarnar með þingsályktunartillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar o.fl. hafa lögfræðingar verið á nokkuð einu máli um að eftir að ákæra hefur verið gefin út á hendur ráðherra sé málið úr höndum Alþingis. Einn þeirra er verjandi Geirs Haardes, Andri Árnason, sem skrifaði grein í Tímarit lögfræðinga árið 2009 sem margoft hefur verið vitnað til í dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um málshöfðun og kosið saksóknara Alþingis, varamann og þingnefnd er málið komið úr höndum þingsins. Alþingi getur ekki eftir það afturkallað málsókn, hvorki hið sama þing né nýskipað.“

Síðan vísar hann til þess að forseti geti leyst ráðherra undan saksókn með samþykki Alþingis, samkvæmt 29. gr. stjórnarskrárinnar.

Það er líka ástæða til að líta nánar á tilgang laganna um landsdóm og þær skýringar sem höfundar þeirra laga gáfu sjálfir fyrir lagasmíðinni. Í árbók Háskólans 1914 talar Lárus H. Bjarnason um landsdóm. Lárus var alþingismaður, sýslumaður og forstöðumaður Lagaskólans á sinni tíð, prófessor í lögum og hæstaréttardómari. Hann fjallar sérstaklega um hlutverk landsdóms í einum kafla og segir þar að eftir að Alþingi hefur samþykkt ákæru á hendur ráðherra og kosið saksóknara sé Alþingi úr málinu og saksóknari kominn í þess stað. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Þó mundi Alþingi geta fellt ákæru niður, áður en málið væri komið í dóm fyrir landsdómi, en yrði þá að gjöra það með þingsályktun í sameinuðu þingi.“

Undir þetta sjónarmið get ég heils hugar tekið því að hefði þessi þingsályktunartillaga komið fram áður en ákæra var útgefin hefði ekkert verið því til fyrirstöðu í mínum huga að taka málið til þinglegrar meðferðar og til þess var rúmur tími. Hvers vegna kom tillagan ekki fyrr? Spyr sú sem ekki veit.

Menn hafa haldið því fram að tveimur veigamiklum efnisþáttum ákærunnar hafi verið vísað frá dómi og látið að því liggja að þar með sé ákæran eiginlega fallin. Þetta er fjarstæða. Saksóknari Alþingis var inntur álits á þessu og sagði hann að niðurstaðan breytti ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina þar sem báðir ákæruliðirnir væru í raun og veru innifaldir í öðrum ákæruliðum, þ.e. þeim fjórum af sex sem teknir voru til greina.

Frú forseti. Grunnforsenda stjórnskipunar okkar er þrískipting valdsins sem felur það í sér að valdastofnanir samfélagsins, löggjafinn, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið seilist ekki hvert inn á annars svið. Burt séð frá því hvort hægt sé að styðja það lagalegum rökum að Alþingi sé heimilt að grípa inn í gang þessa réttarhalds sem nú er hafið gegn Geir H. Haarde þá hlýtur það að teljast eins óeðlilegt og hugsast getur. Ég harma þennan málatilbúnað allan og tel að hér sé um að ræða pólitísk afskipti af dómsmáli sem er hafið. Sé það raunveruleg umhyggja fyrir Geir H. Haarde sem liggur hér undir þá er vandséð að hans málstað sé betur borgið með því að fá niðurfellda ákæru í pólitísku moldviðri á Alþingi en að málið verði leitt til lykta fyrir landsdómi þar sem allar hans málsbætur verða virtar og metnar með hliðsjón af sakarefnum. En það kann auðvitað að vera að hann og flokkssystkini hans á Alþingi meti það þannig að sú niðurstaða sé þrátt fyrir allt betri en dómur landsdóms, en það er þá umhugsunarefni.

Það er dapurlegt að málið skuli endurvakið á þessum vettvangi í pólitísku moldviðri og verði málinu ekki vísað frá í dag er ljóst orðið að Alþingi Íslendinga rís ekki lengur undir nafni sem ein af þremur meginstoðum stjórnskipunar landsins. Hins vegar tel ég, frú forseti, að fari svo að málinu verði ekki vísað frá sé fráleitt annað en því verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins því að ég sé engin rök fyrir því að málið fari til saksóknarnefndar eins og hér hefur verið lagt til fyrr í dag.